Sjófuglabjörg

Grímsey

Eyjan Grímsey liggur um 40 km norður af Íslandi en hún er um 5,3 km2 að flatarmáli. Norðurheimskautsbaugurinn gengur í gegnum eyjuna norðanverða. Mikið sjófuglavarp er í Grímsey og hefur Náttúrustofan talið þar sjófugla á föstum sniðum í nokkur ár. Þá voru svartfuglar veiddir þar, í fyrsta skipti sumarið 2013, til að kanna vetrarferðir þeirra með svokölluðum dægurritum (e. geolocator).

201306_IS__MG_5432

Ásbyrgi

Ásbyrgi er skeifulaga hamrakvos (byrgi) með allt að 100 m háum björgum. Í miðju Ásbyrgi er Eyjan, klettaeyja sem skiptir byrginu nánast í tvennt. Í botni Ásbyrgis er Botnstjörn, forn fosshylur. Í Ásbyrgi er gróskumikill birkiskógur með hávöxnum gulvíði og loðvíði inn á milli. Þar er einnig talsvert af barrtrjám sem Skógrækt ríkisins gróðursetti á síðustu öld. Algengustu fuglar í skóginum eru skógarþröstur, hrossagaukur, auðnutittlingur og músarrindill. Fýll verpir í björgunum en þar verpti hann fyrst árið 1966. Upp úr 1970 fór honum að fjölga og var fjöldinn mestur árið 1997, eða 1306 setur. Hélst fjöldinn nokkuð stöðugur til ársins 2003 en hin síðustu ár hefur honum fækkað. Náttúrustofan fylgist með fjölda fýla í Ásbyrgi og er talið þar árlega. Fálki, smyrill og hrafn verpa einnig af og til í björgunum.

IMG_1370-breytt

Rauðinúpur

Rauðinúpur er um 70 m hátt standbjarg á norðanverðri Melrakkasléttu. Núpurinn er eldstöð frá ísöld og í honum er stór gígskál. Rauðar bergmyndanir einkenna núpinn en í honum er mikið fuglalíf.

201309_IS__MG_9148

Ærvíkurbjarg og Skeglubjarg við Saltvík

Ærvíkurbjarg heitir bjargið sem er næst ósum Laxár í Aðaldal að austanverðu, sunnan við Saltvík. Norðan í Saltvík tekur svo við Skeglubjarg. Náttúrustofan hefur talið ritur í þessum björgum, snemmsumars til að meta fjölda í varpi og aftur síðsumars til að meta varpárangur.

IMG_2830

Skoruvíkurbjarg

Skoruvíkurbjarg er utarlega á Langanesi, norðan til. Í bjarginu er mikið svartfuglavarp og gott er að komast þar nálægt fuglunum. Í Stórakarli sem er stakur klettadrangur skammt frá landi er talsvert súluvarp. Náttúrustofan hefur talið sjófugla á föstum sniðum í Skoruvíkurbjargi frá árinu 2006.

IMG_2174

Fontur

Langanes endar í mjóum bjargtanga sem nefnist Fontur. Bjargið er um 50-70 m hátt og er þar talsvert svartfuglavarp. Þar hefur Náttúrustofan veitt svartfugla (langvía, stuttnefja og álka) til að merkja og festa á dægurrita (e. geolocator).

IMG_3269

WordPress Image Lightbox Plugin