Jörðin Bakki er norðan Húsavíkur en hún liggur að Reyðará sem eru sveitarfélagamörk milli Norðurþings og Tjörneshrepps. Bærinn stóð ofarlega í túni skammt norðan við Bakkaá og austan við vík sem gengur sunnan í Bakkahöfða og nefnd er Bakkakrókur.
Á jörðinni Bakka er skilgreint iðnaðarsvæði, beggja vegna þjóðvegar en innan þess hefur PCC-BakkiSilicon fengið úthlutað lóð undir kísilmálmverksmiðju. Norðan verksmiðjulóðarinnar og norðan Bakkaár, vestan þjóðvegar er víðáttumikið votlendi með mýrum og flóum en umhverfis það eru ræmur af graslendi. Austan votlendisins er mólendi næst þjóðvegi en vestan þess eru þursaskeggsmói með smárunnum, lyngmói og á Bakkahöfða er graslendi með votlendisblettum auk ræktaðra túna sem þekja stærsta hluta höfðans.
Að beiðni PCC-BakkiSilicon hf. hóf Náttúrustofan vöktun á gróðri í nágrenni verksmiðjunnar sumarið 2016 og sumarið 2017 tók hún einnig að sér að safna sýnum úr umhverfinu þar sem áhrif af starfsemi kísilmálmverksmiðjunnar á nokkra umhverfisþætti eru vöktuð.