Fjölbreytni og andstæður einkenna gróðurfar á Norðausturlandi. Í Kelduhverfi og Öxarfirði eru gróskumiklir birkiskógar og fjalldrapamóar, á Fljótsheiði eru víðáttumikil votlendi, á eldvirka svæðinu í nágrenni Mývatnssveitar eru hraunbreiður og sandauðnir og úti við sjóinn skiptast á sandfjörur, grýttar þangfjörur og fuglabjörg.
Landrænt loftslag er einkennandi fyrir innsveitir norðausturlands frá Eyjafirði allt austur í Jökuldal og Fljótsdal. Það gerir gróðurfar svæðisins bæði fjölbreytt og frábrugðið öðrum landshlutum en slíku loftslagi fylgja ákveðin einkenni í gróðurfari s.s. í tegundasamsetningu. Nokkrar plöntutegundir eru bundnar við landræna loftslagssvæðið að einhverju leyti og eru því einkennandi fyrir landssvæðið. Má þar t.d. nefna dvergstör (Carex glacialis), móastör (Carex rupestris), fjallalójurt (Antennaria alpina) og snækobba (Erigeron humile) en tvær þær síðarnefndu finnast inn til landsins.
Eitt af því sem einnig stuðlar að aukinni fjölbreytni gróðurs eru mismunandi snjóalög og á snjóþungum svæðum eins og á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfanda má finna margar tegundir sem ekki finnast á snjóléttari svæðum. Má þar nefna bláklukkulyng (Phyllodoce caerulea).
Á norðanverðri Melrakkasléttu eru norrænar plöntutegundir einkennandi og segja má að norðurhluti Sléttunnar tilheyri skilgreindu norðurheimsskautssvæði í gróðurfarslegu tilliti.