Svæðanotkun fugla
Náttúrustofan hefur frá 2009 stundað rannsóknir á svæðanotkun fugla. Notaðir eru svokallaðir dægurritar (e. geolocator) sem eru fyrirferðalitlir gagnaritar sem festir eru á fótmerki. Þeir safna upplýsingum um staðsetningu út frá birtutíma (daglengd) og veita þannig upplýsingar um ferðir fugla á varptíma og utan varptíma. Fuglarnir eru veiddir, þeir mældir og vigtaðir og úr þeim tekið blóð og fjaðrir sem ætlað er til DNA greininga. Til að nálgast gögnin sem ritarnir safna þarf að ná fuglunum aftur að ári liðnu (eða síðar) og byggist árangur rannsóknanna á því hversu vel það gengur. Um er að ræða tímabundin verkefni, annað hvort á vegum Náttúrustofunnar eða samstarfsverkefni.
Á árunum 2009-2012 voru stundaðar rannsóknir á vetrarstöðvum íslenskra flórgoða (Podiceps auritus). Rannsóknirnar fóru fram á Víkingavatni og Ástjörn í Kelduhverfi. Frumniðurstöður verkefnisins má sjá á veggspjaldi sem kynnt var á Waterbirds ráðstefnu í Annapolis, Bandaríkjunum 9.-12. nóvember 2011.
Farhættir og vetrardreifing sjófugla er verkefni sem Náttúrustofan hefur unnið að frá árinu 2009, bæði á eigin vegum, með öðrum náttúrustofum og í alþjóðlegu samstarfsverkefni SEATRACK sem miðar að því að kortleggja dreifingu og ferðir sjófugla utan varptímans frá fuglabyggðum átta landa umhverfis norðanvert Atlantshaf. Rannsóknirnar hafa farið fram á Langanesi, í Ærvíkurbjargi við Skjálfanda, í Grímsey, í Hafnarhólma á Borgarfirði eystra, á Látrabjargi og snúa að fýl (Fulmarus glacialis), ritu (Rissa tridactyla), langvíu (Uria aalge), stuttnefju (Uria lomvia) og álku (Alca torda). Samhliða þessu verkefni hafa einnig verið tekin blóð- og fjaðursýni úr fuglunum en þau eru ætluð til mælinga á kvikasilfri í tengslum við annað alþjóðlegt samstarfsverkefni, ARCTOX. Markmið þess verkefnis er að kortleggja kvikasilfursmengun í fæðuvefjum sjávar á norðlægum slóðum.
Náttúrustofan er formlegur aðili að rannsóknarverkefni sem tengist sjófuglum og ber heitið LOMVIA en það hófst sumarið 2019. Verkefnið er unnið undir forystu Normans Ratcliffe, líffræðings hjá British Antarctic Survey en það snýr að því að rannsaka ferðir, fæðuöflunarsvæði og fæðu langvíu og stuttnefju á varptíma í mismunandi sjógerðum við Ísland. GPS gagnaritar eru festir á fuglana, ásamt dýptarritum, sem afla nákvæmra upplýsinga um fæðuöflunarferðir og fæðuatferli þeirra. Einnig er gögnum um fæðu fuglanna safnað. Starfsmenn Náttúrustofunnar hafa m.a. aflað gagna um ferðir og fæðu fugla frá Langanesi en auk rannsóknarteymis Náttúrustofunnar á Langanesi hafa önnur rannsóknateymi skipuð erlendum vísindamönnum safnað gögnum á Látrabjargi, í Grímsey, í Skrúð og Papey.
Á árunum 2012-2017 tók Náttúrustofan þátt í alþjóðlegu rannsóknaverkefni á farháttum og vetrardreifingu óðinshana (Phalaropus lobatus) en um niðurstöður þeirrar rannsóknar má lesa hér.
Frá árinu 2006 hafa staðið yfir rannsóknir á farháttum skrofa (Puffinus puffinus), sem verpa í Ystakletti í Vestmannaeyjum. Rannsóknin er unnin í samvinnu við Jacob González-Solís frá Háskólanum í Barcelona og Náttúrustofu Suðurlands. Dægurritarnir gefa upplýsingar um farleiðir og vetrarstöðvar skrofanna í Atlantshafi. Sjá niðurstöður í erindi flutt á Hrafnaþingi í Reykjavík 2011.
Fjölmargar vísindagreinar og erindi hafa verið birt um niðurstöður rannsókna á svæðanotkun fugla síðustu ár og má sjá yfirlit um það í útgefnu efni Náttúrustofunnar.
Plast í fýlum
Árið 2018 tók Náttúrustofan að sér að rannsaka plast í fýlum (Fulmarus glacialis) samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun. Verkefnið er hluti af staðlaðri vöktun á plastmengun á OSPAR svæðinu en OSPAR hóf að nota plast í fýlum sem vistfræðilegan metil á plastmengun hafsins árið 2009 en þá höfðu rannsóknir á plastmengun í fýlum staðið yfir frá níunda áratug síðustu aldar.
Fýll er talinn mjög ákjósanleg tegund til að rannsaka og vakta plastmengun í sjó. Helstu ástæður þess er að fýlar afla sér fæðu eingöngu á sjó og sjaldan nærri landi. Þeir eiga erfitt með að kafa og því afla þeir sér fæðu mest sem næst yfirborði sjávar. Komið hefur í ljós að fýlar gleypa talsvert af plasti og eru nokkrar ástæður taldar fyrir því. Einna helst er talið að sumt plast líkist fæðu, plast geti verið í mögum dýra sem fýllinn étur (úrgangur frá fiskibátum) og að plast í nágrenni fæðu geti borist í fýla við fæðuupptöku.



Söfnun á dauðum fýlum til rannsóknanna fer fram seinnipart vetrar og fram á vor og er hún gerð í samstarfi við fiskibáta sem safna fýlum sem koma í veiðarfæri bátanna. Krufning fýlanna fer fram á Náttúrustofunni en notast er við staðlaðar og samræmdar rannsóknaaðferðir við athugun á plasti í fýlum fyrir OSPAR. Við krufningu á hræjum eru ýmsir líffræðilegir þættir mældir og kyn og aldur greindur. Plastið sem finnst í mögum er flokkað eftir uppruna þess í iðnaðarplast og neysluplast og er neysluplastið svo flokkað nánar eftir gerð þess.
Skýrslur verkefnisins má sjá hér eftir árum.
Vöktun náttúruverndarsvæða
Náttúrustofa Norðausturlands tekur þátt í stóru vöktunarverkefni sem hefur þau markmið að vakta náttúrufar m.t.t. álags ferðamanna, einkum á náttúruverndarsvæðum.
Vöktunin er unnin að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa á landinu, Umhverfisstofnunar, Vatnajökuls-þjóðgarðs og þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Náttúrufræðistofnun Íslands heldur utan um verkefnið og er ábyrgðaraðili þess. Verkefnið hófst árið 2019 með undirbúningi, gagnaöflun og þróun á aðferðafræði ásamt því að einstök vöktunarverkefni voru skilgreind. Vöktunarverkefnin hófust svo árið 2020 og eru þau staðsett víðsvegar um landið. Áhersla er lögð á að vakta náttúrufarsþætti sem eru undirstaða náttúruverndargildis svæðanna, s.s. gróður, fugla, spendýr eða jarðminjar eftir því sem við á. Nánar má lesa um verkefnið hér á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Áhrif ferðamanna á náttúru eru þekkt víða og birtast með ýmsum hætti. Neikvæð áhrif vegna umferðar ferðamanna geta m.a. verið gróðurskemmdir, gróður- og jarðvegseyðing, skemmdir á jarðminjum, mengun, skerðing búsvæða og truflun á dýralífi með margvíslegum afleiðingum fyrir viðkomandi tegundir. Hversu mikil og neikvæð áhrifin verða, veltur ekki aðeins á fjölda gesta sem heimsækja svæðin heldur einnig á hegðun þeirra og dreifingu í tíma og rúmi, ásamt þeirri stýringu og innviðauppbyggingu sem er til staðar á svæðunum. Ein helsta áskorun verkefnisins er að greina þá lykilþætti sem mæla áhrifin af álagi ferðamanna og svara best breytingum í umhverfinu.
Á starfssvæði Náttúrustofu Norðausturlands eru mörg vinsæl ferðamannasvæði þar sem náttúrufar svæðanna er undir álagi vegna umferðar ferðamanna. Mörg svæðin eru friðlýst og eru þá í umsjón stofnana en einnig eru á svæðinu vinsælir áfangastaðir sem ekki njóta verndar. Á svæðinu eru einnig staðir sem eru líklegir til að verða vinsælir áfangastaðir ferðamanna þegar fram í sækir og er mikilvægt að fylgjast með áhrifum ferðamanna á náttúru þeirra staða frá upphafi. Náttúrustofan lagði upp með rúmlega 10 vöktunarverkefni á sínu starfsvæði þar sem vöktuð eru áhrif umferðar ferðamanna á jarðminjar, gróður eða fugla. Áhersla verður á að vakta ákveðna lykilþætti í náttúru svæðanna m.t.t. náttúruverndargildis þeirra, s.s. sjaldgæfar tegundir plantna og fugla, verðmætar vistgerðir og einstakar jarðminjar. Einnig verður leitast við að greina ástand og vakta ýmsa náttúrufarsþætti innan svæðanna óháð álagi frá ferðamönnum.
Ýmsar aðferðir eru notaðar við vöktunina, allt eftir viðfangsefni hennar og þeim þáttum sem mældir eru. Það geta verið endurtekin ljósmyndun, ljósmyndun með flygildi, mælingar og mat á gróðurþekju, GPS hnitun, talningar og fleira.
Farfuglakomur
Frá árinu 2001 – 2020 fylgdist Guðmundur Örn Benediktsson með komu farfugla í Norður-Þingeyjarsýslu. Athugunarsvæðið náði frá Lóni í Kelduhverfi í vestri austur á Hól, austan Raufarhafnar. Síðari árin styrkti Náttúrustofa Norðausturlands Guðmund Örn við þessar athuganir sínar og fékk þannig aðgang að gögnum hans. Samantekt þessara athugana má sjá hér.
Úttekt á stofnstærð íslenska þórshanastofnsins
Náttúrustofan hefur staðið fyrir og haft umsjón með úttekt á stofnstærð íslenska þórshanastofnsins (Phalaropus fulicarious) að fengnu leyfi frá Umhverfisstofnun. Úttektirnar hafa verið unnar í samstarfi við einstaklinga og stofnanir víðs vegar um landið en þær fóru fram 2010, 2014 og 2019 og er markmiðið að reyna gera þær á u.þ.b. 5 ára fresti.
Brandönd
Brandendur (Tadorna tadorna) eru tiltölulega nýlega farnar að verpa á Íslandi en fyrsta staðfesta varp tegundarinnar hér á landi var á Gáseyri við Eyjafjörð árið 1990. Á Norðurlandi var auk Gáseyrar vitað um brandandavarp á Melrakkasléttu, en þar varp tegundin fyrst árið 1999. Árið 2008 var byrjað að telja varppör brandandar á Melrakkasléttu í samvinnu við Guðmund Örn Benediktsson fuglaáhugamann á Kópaskeri. Hér má lesa um landnám brandandar á Melrakkasléttu en greinin birtist í tímaritinu Blika.
Sníkudýr í Botnsvatni
Markmið rannsóknarinnar var að kanna sýkingartíðni andablóðagða í vatnasniglum úr Botnsvatni og komast að því hver sýkingavaldurinn væri við vatnið en þær valda svokölluðum sundmannakláða. Haustið 2005 var vatnasniglum auk tveggja anda safnað í Botnsvatni til sannsókna á blóðögðum. Rannsóknin var gerð í samstarfi við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Niðurstöður rannsóknarinnar má sjá hér í grein Karls Skírnissonar í Náttúrufræðingnum.
Göngumynstur og hrygningarstaðir laxa í Laxá í Aðaldal
Sumarið 2008 vann Kristinn Ólafur Kristinsson að mastersverkefni sínu um göngumynstur og hrygningarstaði laxa í Laxá í Aðaldal. Merktir voru 60 laxar og fylgst með ferðum þeirra um sumarið. Sjá nánar í mastersritgerð Kristins.
Vistfræði og vetrarfæða straumanda Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu
Markmið verkefnisins er að fá heildstæða mynd af vistfræði straumandar við Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu, árið um kring. Straumendur voru taldar við ána og varp kortlagt. Skítsýnum var safnað til greiningar á fæðuleifum. En einnig hafa vefja- og fæðusýni verið send til ísótópagreininga. Sjá nánar um verkefnið í frétt Náttúrustofunnar frá árinu 2005 hér.
Vistfræði tjarna og smávatna
Náttúrustofan tók þátt í rannsókn á vistfræði tjarna og smávatna sem unnin var í samstarfi við Veiðimálastofnun (nú Hafrannsóknastofnun rannsóka- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna), Náttúrufræðistofnun Íslands og Líffræðistofnun Háskólans (nú Líffræðistofa). Verkefnið hlaut styrk frá rannsóknasjóði RANNÍS árið 2006.
Meginmarkmið rannsóknarinnar var þríþætt:
- að afla grunnupplýsinga um vistfræði tjarna á hálendum heiðum, tjarnir á láglendi í sömu landshlutum hafðar til viðmiðunar.
- að meta breytileika í samfélagsgerðum smádýra tjarna/smávatna og svara því hvort samfélög (einkum smádýr) tjarna og smávatna endurspegli landfræðilega staðsetningu fremur en innbyrðis skyldleika.
- að ráða í hvaða þættir það eru sem helst móta þau samfélög smádýra sem finnast í tjörnum og smávötnum.
Sýnum var safnað úr tjörnum á fimm hálendissvæðum og á láglendi til viðmiðunar; á Austurlandi, Norðausturlandi, Norðvesturlandi, Vestfjörðum og á Miðhálendi. Auk þess var upplýsingum um gróðurfar og fuglalíf á tjarnarsvæðunum kannað.