Norðurströnd Melrakkasléttu einkennist af þangríkum, aflíðandi malarfjörum, vötnum, sjávarlónum og sjávarfitjum. Inn af ströndinni taka við mólendi með lágvöxnum mólendisgróðri. Um miðja Melrakkasléttu er Blikalónsdalur, þar fyrir vestan kallast Vestur-Slétta en Austur-Slétta þar austan við. Á Vestur-Sléttu hripar vatn auðveldlega niður í berggrunninn og þar er lítið um yfirborðsvatn inn til landsins. Á Austur-Sléttu hinsvegar er mikið votlendissvæði á þéttum berggrunni og þar skiptast á vötn, tjarnir, ár, mýrlendi og mólendi. Nær votlendissvæðið á Austur-Sléttu allnokkuð inn til landsins.
Fuglalíf á Melrakkasléttu er fjölbreytt og endurspeglar fjölbreytni votlendisgerða, lífríkar fjörur, kalt veðurfar sem setur svip sinn á gróðurfar og síðast en ekki síst staðsetningu. Vitað er til að a.m.k. 53 fuglategundir hafi orpið á svæðinu, þar af 47 að staðaldri. Fuglalíf er fjölbreyttast á strandsvæðum Sléttunnar, þar sem sjó-, vatna- og mófuglar eru alls ráðandi. Einkennisfuglar Sléttu eru m.a. rjúpa og sendlingur en óvíða á landinu finnast þeir í meiri þéttleika á varptíma. Á Rauðanúp er að finna einu svartfuglabyggð svæðisins og jafnframt aðra af tveimur súlubyggðum á Norðurlandi, sem taldi 459 setur árið 2008.
Staðsetning Sléttunnar og lífríkar fjörur eru einkar mikilvægar fyrir umferðarfugla á leið til varpstöðva á Grænlandi og norður Kanada. Fjörurnar nýta fuglarnir til að byggja upp orkuforða og hvíla sig á leið til hinna hánorrænu varpsvæða.
Hin síðustu ár hefur Náttúrustofan stundað mófuglatalningar á Melrakkasléttu en auk þess hefur Guðmundur Örn Benediktsson á Kópaskeri fylgst þar reglulega með fuglalífi og komum farfugla. Náttúrustofan hefur fylgst með landnámi brandanda á Sléttunni en hún er þar nýlegur varpfugl. Auk þess hefur Náttúrustofan aðstoðað Náttúrufræðistofnun Íslands við rjúpnavöktun á svæðinu.