Jarðhitasvæðið Bjarnarflag er vestan við Námafjall í Mývatnssveit og liggur það í um 320 – 350 m hæð yfir sjávarmáli. Norðan þjóðvegar er gamla Kísiliðjan, þar er land raskað og graslendi einkennandi en einnig er þar að finna nokkuð vel gróið hraun þar sem lyngtegundir eru áberandi. Þar undir er jarðhiti og lítilsháttar gufuuppstreymi hér og þar. Sunnan þjóðvegar eru Jarðbaðshólar, fremur lítt grónir gjallgígar þar sem víða er jarðhita að finna. Jarðbaðshólar eru nokkuð raskaðir af malarnámi og öðrum framkvæmdum. Fyrirhuguð virkjun í Bjarnarflagi verður staðsett austan vegar að Jarðböðunum, sunnan þjóðvegar.
Að beiðni Landsvirkjunar hóf Náttúrustofan að fylgjast með útbreiðslu sjaldgæfra háhitaplantna í Bjarnarflagi sumarið 2012; naðurtungu (Ophioglossum azoricum), dvergtungljurtar (Botrychium simplex) og keilutungljurtar (Botrychium minganense). Árið 2014 voru einnig lagðir út gróðurreitir á svæðinu og verður næstu árin fylgst reglubundið með þekju tegunda og tegundahópa í gróðurreitunum. Vöktunin er hluti af vöktun á háhitasvæðum í Suður-Þingeyjarsýslu.