Sumarið 2016 tók Náttúrustofan að sér rannsóknir og vöktun á gróðurfari í nágrenni fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík að beiðni PCC BakkiSilicon hf. en verksmiðjan tók þar til starfa á vormánuðum 2018. Markmið verkefnisins er að fylgjast með gróðurfari í nágrenni verksmiðjunnar og mögulegum áhrifum hennar á gróður. Gróðurfar verður vaktað með því að fylgjast reglubundið með þekju tegunda og tegundahópa í föstum gróðurreitum.
Í tengslum við uppbyggingu og rekstur kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík tók Náttúrustofan einnig að sér gagnasöfnun á nokkrum umhverfisþáttum að beiðni PCC BakkiSilicon hf. sumarið 2017. Vöktunin er hluti af umhverfisvöktunaráætlun PCC BakkiSilicon hf. fyrir verksmiðjuna.
Í vatni eru mæld leiðni, sýrustig og styrkur þungmálmanna arsens (As), kadmíums (Cd), nikkels (Ni), blýs (Pb), kopars (Cu), króms (Cr), sinks (Zr) og kvikasilfurs (Hg) ásamt styrk súlfats (S04), klóríðs (Cl), og PAH-16 efna. Vatnssýni eru tekin árlega úr Reyðará og Botnsvatni.
Í jarðvegi og seti er mældur styrkur brennisteins (S), þungmálma (As, Cd, Ni, Pb, Cu, Cr, Zn og Hg), díoxín, og PAH-16 efna. Í seti er einnig mældur styrkur járns (Fe) og natríums (Na). Jarðvegssýni voru tekin tvisvar sinnum við tvo gróðurreiti í nágrenni verksmiðjunnar og setsýni voru tekin úr Botnsvatni og fjöru við Bakka.
Heysýni eru tekin af túnum á Héðinshöfða 1 og 2 til mælinga á styrk brennisteins (S) í heyi. Heysýni eru tekin annað hvert ár.
Sýnin eru send til Efnagreininga á Hafrannsóknastofnun sem sjá um greiningu sýnanna.