Náttúrustofan rannsakar straumendur

Auk sumarleyfa hafa straumandarannsóknir sett nokkurn svip á starfsemi Náttúrustofunnar undanfarnar vikur. Rannsóknirnar eru styrktar af fjárlaganefnd Alþingis sem veitti Náttúrustofunni 5 m.kr. aukafjárveitingu til þeirra ásamt rannsóknum á lífríki nokkurra vatna í Þingeyjarsýslum. Rannsóknirnar felast í að rannsaka varpvistfræði straumanda á Laxá auk þess að rannsaka vistfræði þeirra á sjó en þar halda þær sig allt frá því síðsumars og fram á vor.

straumendur
Straumandarpar á Laxá í Mývatnssveit.

Meðal þess sem gert hefur verið við Laxá eru talningar í Mývatnssveit en þeim er m.a. ætlað að meta hversu hátt hlutfall kvenfugla verpir þar við Laxá. Í tengslum við talningar á Laxá í Mývatnssveit var leitað að hreiðrum við Geirastaði og Helluvað, þau skráð og fylgst með varpárangri.

straumendur1
Leitað var að straumandarhreiðrum í Helluvaðseyjum undir leiðsögn Árna Gíslasonar bónda á Laxárbakka
straumendur3
Leitað var að hreiðrum í landi Geirastaða undir leiðsögn Finnboga Stefánssonar

Við ströndina hafa straumendur verið taldar reglulega síðustu vikur til þess að fylgjast með komu steggja á fellistöðvar. Fylgst er með tveimur þekktum fellistöðum straumanda við Skjálfanda, Ærvíkurbjargi og Lynghöfða. Við Lynghöfða er ætlunin að útskýra svæðanotkun straumanda á sjó en meginþungi þeirra rannsókna verður í haust. Í tengslum við þær rannsóknir hafa verið gerðar tilraunir með að veiða og merkja straumendur. Merkingar geta líka gefið hugmynd um tengsl varpstöðva, fellistöðva og vetrarstöðva straumanda og varpað þannig ljósi á ferðir þeirra. Gerð var frumkönnun á botngerð þess svæðis sem straumendur halda sig á við Lynghöfða. Voru til þess fengnir kafarar og voru þar á ferðinni Páll Marvin Jónsson forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum og bróðir hans Guðmundur Jónsson.

straumendur9
Páll Marvin og Guðmundur Jónssynir fikra sig út í sjó við Lynghöfðann til að kanna botngerð og dýralíf.
straumendur6
Þorkell Lindberg forstöðumaður Náttúrustofunnar merkir straumandarstegg.
straumendur8
Ásmundur Gíslason starfsmaður Þekkingarsetursins aðstoðaði við straumandaveiðar og hér sleppir hann merktum straumandarstegg.

Straumendur eru amerískar að uppruna og verpa hvergi annars staðar í Evrópu en á Íslandi. Þær halda sig mestan hluta ársins á sjó en yfir varptímann lifa þær á straumvatni. Eftir að kollur hafa lagst á hreiðrin hópa steggirnir sig og halda til sjávar þar sem þeir fella flugfjaðrir. Kollurnar og ungarnir halda síðan til sjávar þegar hausta tekur. Þar halda straumendur sig svo allt þar til tekur að vora og í apríl-maí fara þær að fikra sig upp árnar að nýju.

straumendur4
Straumandarkolla á hreiðri.

 

straumendur5
Straumandarhreiður og egg.

Við Laxá í Mývatnssveit er mesta og þekktasta straumandavarp hér á landi og þótt víðar væri leitað. Ekki er með fullu vitað hvar straumendur af Laxá halda sig utan varptíma en líklegt verður að teljast að þær séu við ströndina út með Tjörnesi þar sem þéttleiki straumanda er hvað mestur hér á landi að vetri til. Endurheimtur á merktum straumöndum úr Aðaldal hafa þó gefið til kynna að þingeyskar straumendur ferðist víðar. Um er að ræða straumandaunga sem merktir voru við Haga í Aðaldal í kringum 1930. Einn þeirra var skotinn á Siglufirði, annar fannst dauður við Veiðileysu á Ströndum og sá þriðji var skotinn við Akranes. Þessar upplýsingar benda til þess að ungfuglar ferðist víða en það er vel þekkt meðal fugla. Allt annað kann að vera upp á teningnum meðal fullorðinna fugla eins og rannsóknir á straumöndum við vesturströnd Kanada hafa gefið til kynna.

Aukin vitneskja á vistfræði straumanda getur stuðlað að markvissri vernd þeirra en þar ber Ísland mikla ábyrgð þar sem straumöndin verpir hvergi annars staðar í Evrópu eins og áður sagði. Íslenska straumöndin er því háð vernd og hefur þess vegna verið sett á Válista Náttúrufræðistofnunar Íslands sem tegund í nokkurri hættu. Í Kanada varð hörmulegt olíuslys  árið 1989, sem kennt er við olíuskipið Exxon Valdez, til þess að athygli var beint að því að rannsaka lifnaðarhætti straumanda og annarra anda sem lifa á afmörkuðum strandsvæðum. Slysið kom illa niður á straumöndum sem höfðu vetursetu á því svæði sem olíumengunin náði til.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin