Náttúrutúlkun er miðlun sem nýtist vel til fræðslu úti í náttúrunni. Starfsmaður náttúrustofunnar kenndi náttúrutúlkun á árlegum landvarðanámskeiðum Umhverfisstofnunar ásamt því að kenna og kynna náttúrutúlkun á öðrum vettvangi, bæði á námskeiðum og í fyrirlestrum. Á landvarðanámskeiðum er lögð áhersla á að þjálfa nemendur til að nota aðferðir náttúrutúlkunar í gönguferðum og annarri fræðslu sem boðið er upp á innan friðlýstra svæða.
Vorið 2011 gaf Náttúrustofan út bókina Náttúrutúlkun – Handbók. Handbókin fjallar um hugmyndafræði og aðferðir náttúrutúlkunar en sérstök áhersla er lögð á að staðfæra efnið að íslenskum aðstæðum. Bókin nýtist meðal annars landvörðum, leiðsögumönnum, kennurum og öðrum sem vilja tileinka sér aðferðir náttúrutúlkunar við leiðsögn og kennslu. Bókin er einnig notuð sem kennslubók í náttúrutúlkun. Gerð og útgáfa bókarinnar var styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar, Vinum Vatnajökuls, Umhverfisráðuneytinu og Ferðamálastofu.