Fræðsluferðir og fræðsluefni

Náttúrustofan er með fiðrildagildrur á tveimur stöðum á starfssvæði sínu, á Bakka við Húsavík og að Ási í Kelduhverfi en sú síðarnefnda er innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Í tengslum við vöktunina var Náttúrustofan með fræðslukvöld í Ásbyrgi í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð en þar var gestum meðal annars gefinn kostur á að fylgjast með tæmingu fiðrildagildrunnar í Ási.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Fálkasetur Íslands var stofnað í Ásbyrgi árið 2011. Haustið 2012 var heimasíða Fálkasetursins opnuð en Náttúrustofan kom meðal annars að ráðgjöf og uppsetningu hennar ásamt því að leiðbeina landvörðum varðandi fræðslu um fálka í Ásbyrgi og Jökulsárgljúfrum til gesta í gönguferðum.

Náttúrustofan hefur einnig veitt ráðgjöf í tengslum við fuglaskoðun á Fuglastíg á Norðausturlandi ásamt því að taka þátt í einstaka fræðsluviðburðum, þá einkum í tengslum við fugla og fuglaskoðun. Náttúrustofan hefur komið að gerð fuglabæklings og fuglatékklista fyrir ferðaþjónustu og Fuglastíg á Norðausturlandi.

IMG_1676

Vorið 2013 kom út bókin Upplifðu náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs með barninu þínu – Ásbyrgi og Skaftafell, en hún er samin af starfsmönnum Náttúrustofunnar en gefin út af Vinum Vatnajökuls sem jafnframt voru aðal styrktaraðilar við gerð bókarinnar. Samfélagssjóður Landsvirkjunar og Samfélagssjóður Landsbankans styrktu einnig gerð bókarinnar. Bókin er ætluð fjölskyldum sem heimsækja Ásbyrgi og Skaftafell og hafa áhuga á að skoða og upplifa saman þá einstöku náttúru sem svæðin hafa að geyma. Í henni er skemmtilegur fróðleikur um náttúru og sögu staðanna ásamt ýmsum hugmyndum um hvað hægt er að gera í náttúrunni eins og að fylgjast með dýralífi, skoða plöntur, búa til sögur og fara í leiki.

bokin

Sumarið 2018 gaf Vatnajökulsþjóðgarður út fræðsluáætlun fyrir þjóðgarðinn en starfsmaður Náttúrustofunnar verkstýrði verkefninu sem unnið var 2016-2018. Vinir Vatnajökuls  styrktu gerð áætlunarinnar en með fræðsluáætlun er stigið stórt skref í átt að markmiðum er lúta að fræðslustarfi þjóðgarðsins og er m.a. kveðið á um í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin