Starfssvæði Náttúrustofu Norðausturlands er eins og nafnið gefur til kynna, Norðausturland, frá Ólafsfirði í vestri og austur á Langanes. Náttúra svæðisins er mjög fjölbreytt og má þar finna mörg merkileg náttúrufyrirbæri hvort heldur sem er á sviði jarðfræði eða líffræði. Að sama skapi eru rannsóknastaðir Náttúrustofunnar mjög fjölbreyttir.
Hnattfræðileg staða starfssvæðis Náttúrustofu Norðausturlands er sú nyrsta af starfsvæðum náttúrustofa á Íslandi. Heimskautsbaugurinn liggur þvert í gegnum Grímsey og nyrsti tangi meginlandsins, Rifstangi á Melrakkasléttu, teygir sig í átt að honum. Bjartar sumarnætur og fallegt sólarlag þar sem sólin sleikir hafflötinn út við ystu sjónarrönd eru því eitt af einkennum svæðisins.