Í ljósi hraðrar fólksfækkunar á Raufarhöfn ákvað Byggðastofnun að prófa nýjar leiðir til að styrkja byggð á Raufarhöfn í samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga (nú Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi Eystra), Háskólann á Akureyri og heimamenn. Hrundið var af stað sérstöku átaksverkefni og var kallað eftir hugmyndum um eflingu samfélagsins, m.a. á íbúafundum. Náttúrustofa Norðausturlands, sem rekin er m.a. af sveitarfélaginu Norðurþingi, skilaði inn tillögu að uppbyggingu rannsóknastöðvar á Raufarhöfn. Henni er ætlað að efla vísindastarf á Melrakkasléttu, m.a. með því að laða að bæði innlenda og erlenda vísindamenn. Hugmyndinni var vel tekið, enda bjóða bæði innviðir á Raufarhöfn og náttúrufar Melrakkasléttu upp á mikla möguleika í rannsóknum á vistkerfi norðurslóða og áhrifum loftslagsbreytinga.
Í framhaldinu var verkefnið skilgreint og sótt um styrk í Vaxtarsamning Norðausturlands (VAXNA). Styrkur fékkst frá VAXNA og úr Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands (EBÍ) en að auki lagði Byggðastofnun fjármagn í verkefnið. Þá fengust peningar af fjárlögum ársins 2014 í verkefnið.
Fjármagnið var nýtt til að skilgreina verkefnið enn frekar, kynna það og afla því stuðnings. Skrifuð var greinargerð á íslensku þar sem fjallað er um náttúrufar á Melrakkasléttu, helstu einkenni svæðisins og rannsóknir sem þar hafa verið gerðar. Í greinargerðinni er sérstaklega fjallað um stefnu, áherslur og útfærslu fyrirhugaðrar rannsóknastöðvar á Raufarhöfn ásamt tengslum við áherslur og skuldbindingar íslenskra stjórnvalda um málefni norðurslóða. Einnig var gerð ensk samantekt til kynningar fyrir erlenda aðila.
Fjármagnið var einnig nýtt til að kynnast starfsemi erlendra rannsóknastöðva sem eru í svokölluðu INTERACT (International Network for Terrestrial Research and Monitoring in the Arctic) samstarfi. Forstöðumanni Náttúrustofu Norðausturlands bauðst að sækja samráðsfund rannsóknastöðva INTERACT („Stations Manager Forum“) í Kiruna í Svíþjóð í september 2013. Á fundinum, sem var mjög gagnlegur til að kynnast starfsemi INTERACT, kom fram ótvíræður áhugi og vilji fyrir því að rannsóknastöð á Raufarhöfn yrði aðili að samstarfsnetinu og hefur rannsóknastöðin verið aðili að því síðan 2016.
Stofnfundur Rannsóknastöðvarinnar Rifs var haldinn á Húsavík föstudaginn 23. maí 2014.
Hér er hægt að sækja greinargerð um rannsóknastöð á Raufarhöfn og ensku greinargerðina, Rif Field Station – Report.