Náttúrustofa Norðausturlands hefur haldið úti vöktun á lífríki láglendisvatna við Skjálfanda og Öxarfjörð að sumarlagi frá árinu 2006. Þar er fylgst með ástandi mýflugnastofna í Miklavatni, Sílalækjarvatni, Víkingavatni og Skjálftavatni allt sumarið. Krabbadýrum er safnað mánaðarlega í Miklavatni og Víkingavatni og hornsíli veidd síðsumars í Víkingavatni.
Flugnagildrur voru settar upp við Miklavatn, Sílalækjarvatn 18. maí og við Víkingavatn og Skjálftavatn 19. maí, samhliða vöktun vatnafugla. Þær eru síðan losaðar mánaðarlega fram til 20. ágúst þegar þær verða teknar niður.

Vatnavöktun Náttúrustofunnar er ætlað að styðja við fuglavöktunarverkefni stofunnar, með það fyrir augum að afla upplýsinga sem skýrt gætu þróun fuglastofnanna. Dagana 18-19. maí voru vatnafuglar taldir á láglendisvötnum í Aðaldal, Reykjadal, Ljósavatnsskarði og Kelduhverfi en vatnafuglar eru taldir tvisvar á sumri. Að vori er fjöldi fugla metinn og aftur síðsumars til að meta ungaframleiðslu.