Rannsóknastöðin Rif á Raufarhöfn var stofnuð 23. maí 2014 og fagnaði því fimm ára afmæli á þessu ári. Náttúrustofa Norðausturlands átti frumkvæði að stofnun hennar í tengslum við átaksverkefni Byggðastofnunar á Raufarhöfn, Brothættar byggðir. Stofnunin er sjálfseignarstofnun og eru stofnaðilar Byggðastofnun, Norðurþing og Náttúrustofa Norðausturlands. Stjórn Rannsóknastöðvarinnar Rifs er skipuð fimm aðilum. Árið 2015 var ráðinn starfsmaður í 70% starfshlutfall og síðastliðin þrjú ár hefur verið starfsmaður í fullu starfi.
Rannsóknastöðin er formlegur aðili að INTERACT (International Network of Terrestrial Research and Monitoring in the Artic), alþjóðlegu neti rannsóknastöðva á heimskautasvæðum. Hlutverk rannsóknastöðvarinnar er þríþætt; að efla rannsóknir, miðla upplýsingum og styðja nærsamfélagið.
Melrakkaslétta ber öll helstu einkenni norðurslóða hvað varðar náttúrufar og veður og er hún því kjörinn vettvangur náttúrufarsrannsókna á norðurslóðum. Melrakkaslétta og lífríkar fjörur hennar eru ekki síst mikilvægar fyrir umferðarfugla á leið til varpstöðva á Grænlandi og norður Kanada. Fjörurnar nýta fuglarnir til að byggja upp orkuforða og hvíla sig á leið til hinna hánorrænu varpsvæða.




Á rannsóknastöðinni er sérstök áhersla lögð á vistkerfisrannsóknir og unnið er að því að koma upp náttúrufarsvöktun eftir sérstakri vöktunaráætlun fyrir Melrakkasléttu. Vöktunaráætlunin er unnin í samstarfi við CAFF, vinnuhóp um varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika á vegum norðurheimskautsráðsins, og rannsóknastöðvar á Grænlandi og Kanada sem eru hluti af INTERACT vísindasamstarfinu.
Melrakkaslétta dregur að vísindamenn og skólahópa víðs vegar að sem koma þangað til að stunda vísindarannsóknir á náttúrufari Melrakkasléttu, loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á norðurslóðum. Rannsóknastöðin veitir vísindamönnum aðstöðu til rannsókna og á hverju sumri verða til um 200-300 gistinætur á Raufarhöfn í tengslum við þessar rannsóknir og fer þeim fjölgandi. Það felast mikil tækifæri í því að gera Melrakkasléttu að miðstöð norðurslóðarannsókna á Íslandi. Sjá einnig facebook síðu rannsóknastöðvarinnar Rifs – Rif Field Station.
Rannsóknastöðin Rif dregur nafn sitt af jörðinni Rif á Melrakkasléttu sem er jafnframt nyrsta jörð á Íslandi og Rifstangi nyrsti oddi Íslands. Rannsóknastöðin hefur jörðina til umráða og nú þegar eru þar stunduð nokkur föst rannsóknaverkefni eins og gróðurfarsrannsóknir, rannsóknir á smádýrum, rannsóknir á fuglum og veðurfarsrannsóknir. Náttúrustofan vaktar mófugla á Rifi með punkttalningum á tveimur sniðum.



Rif á Melrakkasléttu var í ábúð til ársins 1947 en þá voru skilyrði til búskapar orðin þar mjög erfið. Var það ekki síst vegna stórbrims sem gekk á land árið 1934 og eyðilagði túnið. Á jörðinni stendur nú tvílyft yfirgefið íbúðarhús og rústir af stóru útihúsi, hvoru tveggja til vitnis um bjartsýni og stórhuga búskap þess tíma. Um 10 km suður af Rifstanga eru Rifsæðarvötn, þrjú vogskorin vötn rík af silungi, og tilheyra þau jörðinni. Nálægð við sjóinn, fiskirík vötn, rekaviður, æðavarp og fjörubeit voru mikilvæg náttúruverðmæti fyrir íbúa á Melrakkasléttu. Landið er hinsvegar víða mjög grýtt og öll ræktun því miklum takmörkunum háð.





