Sumarstarf Náttúrustofu Norðausturlands

Rannsóknir á rjúpu. Í hverri viku er fylgst með ferðum kvenfugla sem merktir voru í vor en frá þeim rannsóknum var sagt á heimasíðu NNA í vor. Stærstur hluti fuglanna er á Tjörnesi en einnig voru örfáir kvenfuglar merktir við Sand í Aðaldal. Auk þessa tekur Náttúrustofan þátt í ungatalningum hjá rjúpu á svæðinu en Náttúrufræðistofnun Íslands heldur utan um það verkefni.

Vöktun vatnafugla. Á hverju vori eru vatnafuglar taldir á helstu vötnum í Þingeyjarsýslum og í lok júlí og byrjun ágúst fara fram ungatalningar sömu tegunda á vötnunum. Niðurstöður vatnafuglatalninga má sjá hér. Samhliða vöktun vatnafugla er Náttúrustofan með flugnagildrur við nokkur vötn og eru þær tæmdar reglulega yfir sumarið.

Sumarið 2009 voru sett mælitæki á 10 flórgoða við Víkingavatn en þar er mikill þéttleiki flórgoða í varpi. Mælitækin gera mönnum kleift að fylgjast með ferðum flórgoða utan varpstöðva og komast að því hvert þeir fara á veturna og hvar helstu vetrarstöðvar þeirra eru. Í sumar tókst að veiða 4 af þessum 10 flórgoðum aftur og lesa af tækjunum um ferðir þeirra. Ný tæki voru sett á nokkra flórgoða til viðbótar. Með þessum rannsóknum fást mikilvægar upplýsingar um ferðir flórgoðans en mjög takmörkuð vitneskja hefur legið fyrir um vetrarstöðvar íslenskra flórgoða.

sumarstarfNNA
Starfsmenn náttúrustofunnar að undirbúa flórgoðaveiðar.
sumarstarfNNA1
Mælitækið (e. geolocator) sem endurheimt var af flórgoðunum

Hornsíli eru aðalfæða flórgoðans og síðsumars eru lagðar út hornsílagildrur í Víkingavatn en talningar úr þeim gefa vísbendingar um stofnstærðarsveiflu hornsíla í vatninu.

Þá fylgist Náttúrustofan, í samstarfi við Guðmund Örn Benediktsson á Kópaskeri, með landnámi brandanda á Melrakkasléttu en brandönd varp þar í fyrsta sinn árið 1999. Hún hefur gert það gott á Melrakkasléttu en sumarið 2009 fundust þar 12 pör á varptíma.

Vöktun sjófugla. Ritur og svartfuglar eru talin á vorin á nokkrum stöðum í Þingeyjarsýslum, m.a. í Skoruvík á Langanesi, við Saltvík og á Húsavíkurhöfða. Síðsumars fara síðan fram ungatalningar hjá ritu á sömu stöðum.

sumarstarfNNA2
Eitt af talningarsvæðunum í Skoruvíkurbjargi.

Samskonar mælitæki og sett voru á flórgoða voru einnig sett á 20 ritur á Borgarfirði eystra í fyrra. Í ár náðist að veiða 12 ritur og lesa af um ferðir þeirra eins og flórgoðans. Verður þessum rannsóknum haldið áfram.

Fýllinn í Ásbyrgi var talinn í sumar eins og undanfarin sumar en fylgst hefur verið með útbreiðslu hans í Ásbyrgi frá sumrinu 1993. Fýl hefur fækkað mikið í Ásbyrgi og var minna af honum nú en nokkurn tíma áður eftir að talningar hófust. Í fyrra fór stofninn aðeins uppá við en fækkaði nú mikið milli ára. Fækkunina má líklega rekja til ætisskorts í sjónum.

Vöktun mófugla. Þegar fjallað er um mófugla þá er oftast átt við heiðlóu, lóuþræl, hrossagauk, jaðrakan, spóa, stelk, kjóa, þúfutittling og skógarþröst. Aðrir fuglar sem sjást í talningunum eru einnig taldir. Náttúrustofan hóf í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands svokallaðar punkttalningar á mófuglum vorið 2009. Náttúrustofan telur á um 100 punktum sem dreifðir eru um Þingeyjarsýslurnar og fer vöktunin fram í fyrri hluta júní mánaðar.

sumarstarfNNA3
Hneggjandi hrossagaukur.

Vöktun fiðrilda. Náttúrustofan er með tvær fiðrildagildrur á starfssvæði sínu, í Ási í Kelduhverfi og á Skútustöðum í Mývatnssveit. Gildrurnar eru settar upp í 16. viku ársins og standa fram til loka þeirrar 44. Gildrurnar eru tæmdar vikulega í samstarfi við starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi annars vegar og starfsmenn Umhverfisstofnunar og Náttúrurannsóknastöðvarinnar í Mývatnssveit hinsvegar. Sýnin eru greind yfir vetrartímann en verkefnið er unnið í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands sem heldur utan um upplýsingar um útbreiðslu einstakra fiðrildategunda á landinu.

 

 

 

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin