Niðurstöður fiðrildavöktunar árið 2021

Náttúrustofan tekur þátt í vöktun fiðrilda á landsvísu og hefur til þess tvær ljósgildrur sem eru virkar frá miðjum apríl og fram í miðjan nóvember ár hvert. Önnur þeirra er staðsett í Ási í Kelduhverfi og hefur hún verið þar frá árinu 2007. Hin er við Bakka norðan Húsavíkur og var sett þar upp árið 2020 en sú gildra var áður í Mývatnssveit. Talingum og greiningum á afla ljósgildranna fyrir síðasta ár er nú að mestu lokið. Aðeins á eftir að greina sjaldgæf og torgreind fiðrildi sem sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands munu sjá um. Línurit yfir algengustu tegundirnar sem komu í gildrurnar hafa verið uppfærð á síðu Náttúrustofunnar um fiðrildavöktunina

Sumarið 2021 var hlýtt og hægviðrasamt sem er fiðrildum hagstætt. Í ljósgildruna í Ási komu fleiri fiðrildi en nokkru sinni áður eða 11.748. Búið er að telja og greina 25 tegundir fiðrilda úr aflanum en búast má við að heildarfjöldi tegunda verði nálægt 30 þegar búið verður að greina þau 42 fiðrildi sem ógreind eru. Tvær tegundir skáru sig úr hvað fjölda varðar, tígulvefari og birkivefari en yfir 4.000 fiðrildi af hvorri tegund komu í gildruna. Það er mesti fjöldi tígulvefara sem komið hefur í ljósgildruna í Ási þau 15 ár sem hún hefur verið í notkun. Fiðrildi birkivefara hafa einu sinni verið fleiri. Lirfur beggja þessara tegunda lifa að mestu leyti á laufum birkis og því má gera ráð fyrir að skógurinn í nágrenni Áss hafi mátt þola mikið beitarálag af þeirra völdum síðasta sumar. 

Fjöldi fiðrilda sem komið hefur í ljósgildruna í Ási eftir árum. Sýndur er fjöldi 8 algengustu tegundanna.

Í gildruna á Bakka komu 532 fiðrildi á síðasta ári, 18 tegundir hafa verið greindar en 9 fiðrildi eru enn ógreind. Þetta er annað árið sem ljósgildra er starfrækt á Bakka og afli ársins 2021 rúmlega helmingi meiri en árið 2020. Grasvefari var í mestu magni eins og árið á undan en aðrar algengar tegundir voru víðifeti, brandygla, klettafeti og túnfeti. 

Fjöldi fiðrilda sem komið hefur í ljósgildruna á Bakka eftir árum. Sýndur er fjöldi 6 algengustu tegundanna.

Munurinn á magni fiðrilda sem berst í ljósgildrurnar tvær ræðst af umhverfi gildranna. Gildran í Ási er staðsett á vel grónum stað við birkiskóg á meðan gildran á Bakka er í rýrum og rofnum lyngmóa. Fiðrildi eru góður vísir á breytingar í umhverfinu þar sem þau bregðast hratt við breytingum á gróðurfari og veðráttu. Niðurstöður einstakra ára segja takmarkaða sögu en eftir því sem árin líða verða gögnin áreiðanlegri og raunverulegar breytingar fara að koma í ljós.  

 


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin