Að venju voru fiðrildagildrur settar upp í dag, 16. apríl. Hingað til hefur Náttúrustofan verið með tvær gildrur, aðra við Ás í Kelduhverfi og hina við Skútustaði í Mývatnssveit. Gildran við Skútustaði hefur ekki gengið nógu vel. Perur hafa sprungið ört sem kemur niður á gæði gagnanna. Því var ákveðið að finna þeirri gildru nýjan stað. Auk þess hafði Náttúrustofan komið sér upp þriðju gildrunni og því þurfti að finna tvo nýja staði. Fiðrildagildrurnar þurfa að komast í samband við rafmagn og því ekki hægt að staðsetja þær hvar sem er. Ákveðið var að setja aðra við tengivirkið á Bakka og hina á Þeistareykjum. Í dag voru gildrurnar við Ás og tengivirkið á Bakka settar á sína staði og ljósin tendruð. Vegna snjóa verður beðið aðeins með að setja gildru upp við Þeistareyki. Þessi vöktun Náttúrustofunar er ekki möguleg nema vegna samstarfsaðila sem veita aðgang að rafmangi auk þess sem landverðir í Vatnajökulsþjóðgarði og í Mývatnssveit hafa tæmt gildrur. Náttúrustofan vill koma á framfæri kæru þakklæti til Vatnajökulsþjóðgarðs, Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, Umhverfisstofnunar, Landsnets og Landsvirkjunar fyrir þeirra framlög.
Ef veður leyfir munu gildrurnar vera í sambandi og safna fiðrildum til 12. nóvember. Þær verða tæmdar vikulega og aflinn geymdur í frysti uns greining fer fram. Öll fiðrildi eru talin og greind til tegundar. Hægt er að skoða niðurstöður þessarar vöktunar hér á heimasíðu Náttúrustofunnar. Ekki er búið að greina afla síðasta árs en það verður gert fljótlega og munu þær niðurstöður þá bætast við.



