Lítið um fiðrildi í sumar

Þann 5. nóvember voru fiðrildagildrur Náttúrustofunnar teknar niður eftir að hafa verið í gangi í 29 vikur í ár. Búið er að fara í gegnum afla sumarsins og greina flest fiðrildi til tegundar en eftir er að staðfesta torgreindar tegundir og vafaatriði. Heildarmyndin er þó nokkuð skýr og verður hér greint frá henni.  

Í Ási í Kelduhverfi hefur fiðrildagildra verið starfrækt frá árinu 2007 eða í samtals 7 ár. Í gildruna bárust á þessu ári 1556 fiðrildi af 23 tegundum. Þetta er næst minnsti fjöldi sem komið hefur í gildruna á einu ári en að meðaltali hafa þau verið um 4400. Árið í fyrra var það langslakasta hingað til og kemur nú annað slakt ár í röð. Fjöldi tegunda virðist þó vera nálægt meðallagi en það gæti átt eftir að breytast þegar búið er að greina vafaatriðin.

Mjög lítið kom af grasvefara og tígulvefara í gildruna í Ási í ár eins og í fyrra en þetta eru tegundir sem alla jafna skipa um helming aflans. Af öðrum tegundum sem óvenju lítið var af má nefna grasyglu og birkivefara en báðar þessar tegundir koma nú í minna magni en nokkru sinni áður. Tegundum hafði þó ekki öllum fækkað og má nefna skrautfeta sem dæmi um tegund í sókn en af honum hafa einungis einu sinni komið fleiri eintök.

Á Skútustöðum í Mývatnssveit hefur ljósgildra verið starfrækt í fimm ár eða frá árinu 2009. Árið í ár er það slakasta frá upphafi ef litið er til fjölda fiðrilda en aðeins bárust 383 eintök í gildruna sem er innan við helmingur þess sem vanalega gerist. Af þremur tegundum, klettafeta, túnfeta og tígulvefara hafa aldrei komið jafn fá eintök. Hins vegar var mikið af brandyglu og grasvefara.

Í aflanum á Skútustöðum í ár hafa verið greindar 14 tegundir sem er það minnsta frá upphafi. Þrátt fyrir fáar tegundir þá eru þrjár nýjar sem ekki hafa komið í gildruna áður. Þetta eru tegundirnar hringygla, kálmölur og skógvefari. 

Eins og áður segir þá eru þetta frumniðurstöður þar sem eftir er að greina vafaatriði. Það er því ekki búið að uppfæra línurit yfir fiðrildavöktunina hér á vef Náttúrustofunnar en sjá má línurit fyrir algengustu tegundirnar fram til ársins 2012 hér.

Fidrildagildra
Fiðrildagildran við Skútustaði sett upp í vor.

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin