Flórgoða fækkar

Meðal verkefna Náttúrustofunnar er árleg talning vatnafugla að vori á völdum láglendissvæðum í Þingeyjarsýslum. Talningarnar hófust árið 2004 og eru gerðar í samvinnu við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn (RAMÝ) sem hefur séð um talningar á vatnasviði Mývatns og Laxár frá árinu 1975 auk Svartárvatns og efri hluta Svartár í Bárðardal í seinni tíð. Samvinna þessara tveggja stofnana auðveldar samanburð milli svæða og gefur jafnframt heildstæða sýn á ástand vatnafuglastofna í sýslunum. Hvergi annars staðar á landinu eru til viðlíka upplýsingar um ástand þessara stofna að vori. Í þessu sambandi er líka vert að hafa í huga að í Þingeyjarsýslum verpir stór hluti margra íslenskra vatnafuglastofna, t.d. stofnar gargandar, hrafnsandar, húsandar og flórgoða.

1. mynd. Flórgoði í varpbúningi – NNA/Yann Kolbeinsson.

Óhætt er að segja að flórgoði sé einn einkennisfugla Þingeyjarsýslna sem og Náttúrustofunnar, enda prýðir hann lógó stofunnar. Vorið 2022 fundust 496 flórgoðar á talningarsvæðum Náttúrustofunnar og RAMÝ. Hér er um tæpa 27% fækkun að ræða frá vorinu 2021. Fækkunin er í takt við stofnþróun síðustu ára, því sé litið aftur til ársins 2011, þegar fjöldinn náði hámarki, þá hefur flórgoða fækkað um samtals 63%. Hröðust hefur fækkunin verið síðustu fjögur ár.

2. mynd. Fjöldi flórgoða í Þingeyjarsýslum. Sýndur er heildarfjöldi fugla á öllum töldum svæðum frá 2004 til 2022 ásamt langtímaþróun í Mývatnssveit frá 1975 (efri mynd til vinstri). Einnig eru sýndar breytingar á völdum stöðum í Aðaldal og Kelduhverfi.

Íslenski flórgoðastofninn hefur gengið í gegnum talsverðar sveiflur síðustu áratugi. Til að mynda er talið að hér hafi verið að finna 1.000-2.000 pör í kringum 1950. Mikil fækkun átti sér stað í framhaldinu og náði stofninn lágmarki um 1990 þegar hann taldi rétt um 300 pör. Þá snérist þróunin og við tók fremur snörp fjölgun sem eins og áður sagði náði hámarki í Þingeyjarsýslum árið 2011.

Náttúrustofan hefur staðið fyrir stofnstærðarúttekt á landsvísu í samstarfi við fjölmarga aðila í þrígang síðustu tvo áratugi; árin 2004-2005, 2011-2012 og loks 2016-2018. Úttektin sem fram fór 2004-2005 sýndi að stofninn hafði stækkað í u.þ.b. 700 pör og því rúmlega tvöfaldast frá stofnstærðarmatinu 1990. Næsta úttekt, árin 2011-2012, var gerð þegar stofninn náði hámarki í Þingeyjarsýslum. Tölur bentu þá til að íslenski stofninn teldi allt að 1.200 pör (óbirt gögn). Samhliða fækkun í Þingeyjarsýslum í kjölfarið benti næsta stofnúttekt, árin 2016-2018, til að fækkað hefði aftur í stofninum um u.þ.b. 300 pör. Vonir standa til að næsta talning á landsvísu fari fram vorið 2023 og verður þá áhugavert að sjá hver staðan verður, eftir mikla fækkun í Þingeyjarsýslum síðustu ár. Ekki er víst að flórgoðum hafi endilega fækkað í öllum landshlutum en þar sem mikill meirihluti stofnsins er í Þingeyjarsýslum er þróunin þar mjög ráðandi gagnvart heildar þróun íslenska flórgoðastofnsins.

Um ástæður þróunar er erfitt að fullyrða en þar koma til álita aðstæður á bæði varp- og vetrarstöðvum. Rannsóknir Náttúrustofunnar á svæðanotkun flórgoða utan varptíma hafa m.a. sýnt að þeir halda sig m.a. við strendur Bretlandseyja á veturna (sjá https://nna.is/ny-taekni-afhjupar-vetrarstodvar-islenskra-florgoda/). Ekki er ólíklegt að auk fæðutengdra þátta geti afrán minks að einhverju leyti haft áhrif á stofnþróun flórgoða hér á landi.

WordPress Image Lightbox Plugin