Náttúrustofan endurheimti í fyrra fjóra hnattstöðurita (e. geolocator) sem festir höfðu verið á flórgoða sumarið 2009. Hnattstöðuritarnir eru frá British Antarctic Survey og mæla birtutíma en út frá því er hægt að reikna staðsetningu. Þannig má grafast fyrir um ferðir flórgoðanna. Þessi tæki hafa verið að ryðja sér til rúms í fuglarannsóknum á síðustu árum og hafa fram að þessu mest verið notuð á sjófugla. Helsti kostur tækjanna er að þau eru mjög lítil og létt, þannig að það má auðveldlega festa þau á fótmerki fugla (sjá mynd). Aldrei áður hafa sambærileg tæki verið notuð á flórgoða, né heldur á neinn af hans helstu ættingjum innan goðaættarinnar.

Á Náttúrustofunni hefur að undanförnu verið unnið úr þeim gögnum sem hnattstöðuritarnir söfnuðu veturinn 2009 – 2010. Upplýsingarnar gefa góða mynd af farhegðun flórgoðanna og einnig hvar þeir héldu sig yfir háveturinn. Engar sambærilegar upplýsingar liggja fyrir um flórgoða og nýnæmi þeirra er því mjög mikið. Þrír flórgoðanna héldu til við Skotland, allir þó á mismunandi svæðum, og einn við Frakkland. Þessar niðurstöður eru mjög athyglisverðar, ekki síst í ljósi þess að allir eru flórgoðarnir næstu nágrannar á Víkingavatni, þar sem þeir voru merktir. Á Víkingavatni voru tveir flórgoðanna á hreiðri í sömu stararflögunni, með aðeins nokkurra metra millibili. Hinir tveir áttu hreiður í næstu tveimur stararflögum þar fyrir sunnan, í innan við 100 m fjarlægð.



Reglubundin vöktun fuglastofna er grunnurinn að því að skynja og skrá stofnbreytingar, líkt og orðið hafa á flórgoðastofninum. Til þess að fylgjast með ástandi og þróun stofna eða vistkerfa og nema möguleg utan að komandi áhrif er hún því mjög mikilvæg. Þegar kemur að því að útskýra stofnbreytingar og tengja þær einhverjum áhrifaþáttum þurfa hins vegar að liggja fyrir grunnupplýsingar um vistfræði viðkomandi stofns. Í þekkingu á vistfræði íslenska flórgoðastofnsins vantar tilfinnanlega upplýsingar um farleiðir og vetrarstöðvar. Það er einmitt tilgangur þessarar rannsóknar, að afla upplýsinga um farleiðir og vetrarstöðva íslenskra flórgoða. Þessar upplýsingar geta skipt miklu máli við að tryggja vernd stofnsins til framtíðar.
Auk þess að vera vísindalega mikilvægar og hagnýtar á ýmsan hátt, eru rannsóknir sem þessar alltaf mjög spennandi. Menn hafa lengi velt fyrir sér farflugi fugla og hvar þeir, sem heiðra okkur aðeins með nærveru sinni á sumrin, halda sig á veturna. Farflug fugla hefur þannig verið sveipað dulúð og aðdáun mannsins í gegnum tíðina, enda eitt af merkilegustu fyrirbærum í lífríki jarðar. Hnattstöðuritarnir gefa okkur einstaka sýn á þennan þátt í lífi fuglanna og í raun algjör forréttindi að fá að skyggnast með slíkum hætti inn í líf þeirra. Hvað flórgoða varðar segir reyndar íslensk þjóðtrú að þeir bíti sig fasta á botn vatna og haldi sig þar yfir veturinn, uns þeir dúkka upp um leið og ísa leysir.
Náttúrustofan mun halda áfram rannsóknum á farháttum fugla, með hjálp hnattstöðurita, í tengslum við vöktunarrannsóknir stofnunarinnar. Í sumar verður vitjað flórgoða sem merktir voru með hnattstöðuritum sumrin 2009 og 2010, auk þess sem fleiri slíkum tækjum verður komið út. Þess má reyndar geta að Náttúrustofan hefur einnig fest hnattstöðurita á ritur og verður síðar greint frá því verkefni.