Náttúrustofan er með tvær fiðrildagildur, önnur er staðsett í Ási í Kelduhverfi en hin á Skútustöðum í Mývatnssveit. Gildrurnar eru settar upp um miðjan apríl og teknar niður í byrjun nóvember ár hvert en tæmdar vikulega. Nú er greiningum lokið á afla síðasta árs (2018). Helstu niðurstöður ársins má sjá hér að neðan en nánari upplýsingar um verkefnið, tegundalista og gröf sem sýna veiðar síðustu ára má sjá hér.
Rekstur gildrunnar í Ási gekk vel og komu í hana 3.166 fiðrildi af 26 tegundum. Fjöldi fiðrilda var undir meðallagi en tegundafjöldinn nálægt meðaltali. Engin ný tegund fannst þetta árið. Mest barst í gildruna af birkivefara (Acleris notana) eða 1311 sem er næst mesti fjöldi birkivefara sem komið hefur í gildruna á einu ári. Næstur í röðinni var tígulvefari (Epinotia solandriana) með 702 eintök. Þessar tvær tegundir stóðu því undir um 2/3 hluta aflans. Báðar þessar tegundir lifa fyrst og fremst á birki sem mikið er um í nágrenni gildrunnar í Ási. Það sem er óvenjulegast við afla ársins 2018 er fjöldi lyngvefara (Acleris maccana) sem hefur aldrei verið meiri. Það komu 182 lyngvefarar í gildruna en árið 2017 voru þeir 50 sem þá var með því mesta en árin á undan hafði mest komið 15 lyngvefarar á einu ári.
Nokkur vandkvæði voru með gildruna á Skútustöðum. Perur í gildrunni sprungu alls sex sinnum yfir sumarið, líklegt er að það hafi haft einhver áhrif á veiðarnar.
Fjöldi fiðrilda var aðeins undir meðallagi en tegundafjöldinn hefur aldrei verið meiri eða 19 tegundir sem er jafnt meti sem staðið hefur frá 2012. Tvær nýjar tegundir bárust í gildruna, flikruvefari (Cochylis dubitana) og sigðygla (Helotropha leucostigma). Flikruvefari er talinn hafa numið hér land á Suðausturlandi um miðja síðustu öld og breiðst þaðan út um landið, fyrst um Suður- og Vesturland en er nú að nema land á Norðurlandi. Flikruvefarinn hefur komið nokkrum sinnum í gildruna í Ási. Sigðygla er fremur sjaldgæft flækingsfiðrildi frá Evrópu og er þetta fjórði fundarstaður tegundarinnar hér á landi. Um helmingur aflans frá 2018 var víðifeti (Hydriomena furcata) en sú tegund hefur verið algengasta fiðrildið í gildrunni á Skútustöðum frá upphafi. Næst algengasta fiðrildi var tígulvefari. Í fyrsta sinn kom enginn grasvefari (Eana osseana) en að meðaltali hafa komið 27 grasvefarar á ári.