Fiðrildavöktun 2017

Náttúrustofan vaktar fiðrildi með ljósgildrum á tveimur stöðum í Þingeyjarsýslum, í Ási í Kelduhverfi og á Skútustöðum í Mývatnssveit. Ljósgildrurnar samanstanda af lokuðum kassa sem stór trekt gengur ofan í, ofan við trektina er sterkt ljós sem fiðrildin sækja í. þegar þau lenda á ljósaperunni falla þau niður eftir trektinni ofan í kassann. Í kassanum er svæfingarefni (klóróform) sem gerir þau sljó og svæfir svo. Gildrurnar eru tæmdar vikulega og er aflinn frystur en greiningar fara fram yfir vetrartímann. Flestar stærri tegundir fiðrilda eru auðgreindar á líkamslögun, lit og mynstri vængja. Sumar tegundir, sérstaklega þær smærri eru það svipaðar í útliti að örugg greining fæst aðeins með skoðun á kynfærum þeirra.

 

Fiðrildagildran í Ási
Fiðrildagildran í Ási

 

Nú hefur verið farið í gegnum afla síðasta árs, telja og greina til tegunda. Aðeins á eftir að greina 14 torgreind fiðrildi sem komu í gildruna í Ási. Þau verða send til sérfræðings á Náttúrufræðistofnun Íslands sem mun skera úr um tegundirnar. Þessi 14 fiðrildi skipta þó litlu máli í heildarsamhenginu, algengustu tegundirnar eru þær sem hafa mest vægi þegar vöktun er annars vegar. 

Sumarið 2017 var gott fiðrildaár ef tekið er mið af fjölda fiðrilda sem bárust í gildrurnar. Í Ási komu 5130 fiðrildi sem er næst mesti fjöldi frá árinu 2007 er vöktun hófst þar. Á Skútustöðum komu 697 fiðrildi sem er yfir meðaltali en vöktun þar hófst árið 2010. Fjöldi tegunda var líka yfir meðaltali á báðum stöðum. Á Skútustöðum komu 17 tegundir og búið er að greina 23 í Ási en ógreindu fiðrildin eru að minnsta kosti af 3 tegundum.

 

Afli gildrunnar í Ási vikuna 7. - 14. ágúst 2017
Afli gildrunnar í Ási vikuna 7. – 14. ágúst 2017

 

Það er í raun tvennt sem ræður því hve mörg fiðrildi berast í gildruna, annars vegar hve mikið er af viðkomandi tegund á svæðinu og hins vegar veðurfar á flugtíma tegundarinnar. Þetta sést nokkuð vel í gildrunni í Ási. Lítið kom af mófeta en hann flýgur mest í júní sem var frekar kaldur mánuður. Mikið var hins vegar um túnfeta en hann flýgur mest í júlí sem var hlýr. Veðuráhrifin voru þó hvað mest áberandi um haustið (september og október) en þá var óvenju hlýtt. Þær þrjár tegundir sem eru á ferðinni svo seint að hausti, birki- og lyngvefari og haustfeti komu allar fram í meira magni í Ási en nokkru sinni. Línurit sem sýna fjölda algengustu fiðrildategundanna hafa verið uppfærð á heimasíðunnu, þau má sjá hér.

 

Túnfeti er algeng tegund um mitt sumar
Túnfeti er algeng tegund um mitt sumar

 

Fiðrildavöktun fyrir árið í ár mun hefjast 16. apríl en þá verða gildrurnar settar upp og munu ljós þeirra loga að minnsta kosti fram til 5. nóvember. Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar hafa séð um tæmingar á gildrunum og vill náttúrustofan hér með koma á framfæri þakklæti til þeirra.

 

Haustfeti var í mjög miklu magni í Ási haustið 2017.
Haustfeti var í mjög miklu magni í Ási haustið 2017.

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin