Fiðrildavöktun 2015 – frumniðurstöður

Vöktun fiðrilda á Íslandi er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og nokkurra náttúrustofa. Vöktun þessi hófst árið 1995 þegar Náttúrufræðistofnun Íslands tók þátt í samnorrænu verkefni en um það má lesa á heimasíðu hennar. Náttúrustofa Norðausturlands var fyrsta náttúrustofan til að taka þátt í vöktuninni þegar hún setti upp fiðrildagildru í Ási árið 2007. Annarri var svo bætt við um mitt sumar 2009 og sú staðsett að Skútustöðum í Mývatnssveit. Hún hefur reyndar ekki alltaf virkað sem skyldi, aðallega vegna þess hve perur í henni eru gjarnar á að springa. Af þessum sökum eru gögnin þaðan ekki eins áreiðanleg en gefa þó vísbendingar um ástandið.

Rekstur gildranna gekk að mestu vel í sumar en þær eru yfirfarnar og tæmdar vikulega. Náttúrustofan naut aðstoðar starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs við tæmingar í Ási og Umhverfisstofnunar við tæmingar á Skútustöðum. Er þessum aðilum þakkað gott samstarf.

Strax að lokinni tæmingu er aflinn frystur og fiðrildi svo talin og greind til tegunda veturinn eftir. Þessum greiningum er nú að mestu lokið. Enn á þó eftir er að yfirfara fágætar og torgreindar tegundir. Það er því komin nokkuð góð mynd á fiðrildalífið á þessum stöðum sumarið 2015 og hafa línurit þeirra tegunda sem nú þegar eru greind verið uppfærð hér á heimasíðunni.

Þegar litið er yfir niðurstöðurnar kemur í ljós að allt er nokkuð seinna á ferðinni en venjulega. Flestar tegundir birtast, ná hámarki og hverfa seinna en vanalega, svo munar að meðaltali um tveimur vikum. Myndirnar hér fyrir neðan byggja á gögnum frá Ási og sýna vel hve seint fiðrildin voru á ferðinni.

Heildarfjöldi samanburður 2015 við fyrri ár
Vikulegur fjöldi fiðrilda sem bárust í fiðrildagilruna í Ási í Kelduhverfi árið 2015 borið saman við meðaltal áranna 2007-2014.
Skrautfeti samanburður 2015 við fyrri ár
Vikulegur fjöldi skrautfeta sem bárust í fiðrildagilruna í Ási í Kelduhverfi árið 2015 borið saman við meðaltal áranna 2007-2014.
Klettafeti samanburður 2015 við fyrri ár
Vikulegur fjöldi klettafeta sem bárust í fiðrildagilruna í Ási í Kelduhverfi árið 2015 borið saman við meðaltal áranna 2007-2014.
Víðifeti samanburður 2015 við fyrri ár
Vikulegur fjöldi víðifeta sem bárust í fiðrildagilruna í Ási í Kelduhverfi árið 2015 borið saman við meðaltal áranna 2007-2014.
Brandygla samanburður 2015 við fyrri ár
Vikulegur fjöldi brandygla sem bárust í fiðrildagilruna í Ási í Kelduhverfi árið 2015 borið saman við meðaltal áranna 2007-2014.
Tígulvefari samanburður 2015 við fyrri ár
Vikulegur fjöldi tígulvefara sem bárust í fiðrildagilruna í Ási í Kelduhverfi árið 2015 borið saman við meðaltal áranna 2007-2014.

Ástæðu þessa má að öllum líkindum rekja til veðurfarsins. Vor og sumar var óvenju kalt og gróður fór hægt af stað. Hitastig 16. – 32. viku ársins 2015 var um 2,2 gráðum lægra en á sama tímabili átta árin þar á undan. Síðan hlýnaði og hitastig 33. – 44. viku var 1,8 gráðu hærra en átta árin á undan. Þessi viðsnúningur í veðri sést vel á myndinni hér að neðan þar sem súlur fram til 32. viku snúa flestar niður en upp eftir það.

Frávik hitastigs í Ási árið 2015 samanborði við árin 2007 til 2014

Fleiri þættir geta þó haft áhrif á fjölda þeirra fiðrilda sem birtast ár hvert og getur fjöldi einstakra tegunda sveiflast mjög mikið milli ára. Almennt kom mikið af fetum (tegundum af fetaætt) en lítið af vefurum (tegundum af vefaraætt) í gildruna í Ási í ár. Þannig var metfjöldi skrautfeta, klettafeta og túnfeta auk þess sem óvenju mikið var af víðifeta. Hins vegar var lítið af birkivefara, grasvefara og tígulvefara. Á Skútustöðum var metfjöldi klettafeta og grasvefara en engin tegund var í óvenju litlum mæli.

Af flækingsfiðrildum hefur verið mikil ganga af gulyglum. Í gildruna í Ási komu 39 slíkar, sem er um helmingi meira en samanlagður fjöldi allra átta áranna á undan. Á Skútustöðum höfðu gulyglur aldrei komið í gildruna en nú voru þær 10. Búið er að greina tvær nýjar tegundir, úlfyglu og netluyglu. Úlfyglur voru á báðum stöðum, ein á Skútustöðum og fjórar í Ási en eina netluyglan kom fram á Skútustöðum. Þó nokkur fiðrildi bíða greiningar og því hugsanlegt að fleiri nýjar tegundir muni bætast við.

Flækingar-2
Þrjár yglutegundir sem komu í fyrsta sinn í fiðrildagildrunar á Skútustöðum sumarið 2015. Frá vinstri; gulygla, úlfygla og netluygla.
WordPress Image Lightbox Plugin