Síðastliðinn þriðjudag var farinn leiðangur út í Elliðaey í Vestmannaeyjum og vöktunarmyndavél komið fyrir við Háubæli. Þar hefur hún verið starfrækt frá sumrinu 2017 en það þurfti að endurnýja vélina eftir að hún skemmdist síðla sumars 2020. Var henni nú komið fyrir á sama stað tímanlega fyrir upphaf varps bjargfugla. Til gamans má nefna að árið 2019 varp fyrsta langvían í Háubælum, sem myndavélin sá til, þann 1. maí, fyrsta ritan 6. maí og fyrsti fýllinn 14. maí. Sama ár sáust fyrstu langvíurnar í bjarginu 12. febrúar og riturnar 25. febrúar.
Þrjár nýjar vöktunarmyndavélar verða settar upp í Grímsey, Látrabjargi og Hælavíkurbjargi síðar í vor og sumar. Þar með munu fást gögn um varptíma og varpárangur bjargfugla frá samtals átta myndavélum á fimm stöðum umhverfis landið.









