Vorverk náttúrustofunnar

Með hækkandi sól og snjóbráð fer að bera á starfsfólki Náttúrustofunnar utandyra. Huga þarf að árlegum vorverkum fuglavöktunarverkefna en blessunarlega er enga undantekningu að sjá í þeim efnum þrátt fyrir sérstakar aðstæður í þjóðfélaginu. Aðgát er þó höfð í návist annarra eins og almenn tilmæli mæla fyrir um.

Á undanförnum dögum hefur verið hugað að vöktunarmyndavélum bjargfugla hringinn í kringum landið. Undanfarin ár hefur myndavélin við Bjargtanga á Látrabjargi verið eina myndavélin sem tekin hefur verið niður á haustin og var hún því eina vélin sem þurfti að setja upp í vor. Myndavélabúnaður í Grímsey, Skoruvíkurbjargi og Vestmannaeyjum var yfirfarinn og ánægjulegt er frá því að segja að engar skemmdir höfðu orðið á honum þrátt fyrir krefjandi veður á nýliðnum vetri. Marinó Sigursteinssyni eru sérstaklega færðar þakkir fyrir að huga að vélinni í Vestmannaeyjum á ferð sinni um Elliðaey. Vöktunarmyndavélar Náttúrustofunnar taka ljósmyndir með 1 klst. millibili árið um kring og eru myndir sóttar í lok hvers sumars. Þær veita ómetanlegar upplýsingar um varp langvíu, stuttnefju, fýls og ritu í björgunum, m.a. um tímasetningu varps og mat á ungaframleiðslu tegundanna.

Aðalsteinn Örn og Yann setja upp búnaðinn á Látrabjargi.
Aðalsteinn Örn og Yann setja upp búnaðinn á Látrabjargi.

 

Vöktunarmyndavélin klár við Ritugjá í Látrabjargi.
Vöktunarmyndavélin klár við Ritugjá í Látrabjargi.

 

Rita og stuttnefjur í Ritugjá á Látrabjargi.
Rita og stuttnefjur í Ritugjá á Látrabjargi.

 

Yann yfirfer búnaðinn við Köldugjá í Grímsey.
Yann yfirfer búnaðinn við Köldugjá í Grímsey.

 

Fyrsta vöktunarmyndavélin sem sett var upp, sumarið 2015, í Skoruvíkurbjargi á Langanesi.
Fyrsta vöktunarmyndavélin sem sett var upp, sumarið 2015, í Skoruvíkurbjargi á Langanesi.

 

Dæmi um upplýsingar sem fást með notkun vöktunarmyndavéla. Hér má sjá (A) upphaf varptíma hjá ritu vorið 2019, og (B) þróun á upphafi varptímans frá 2016 til 2019. SVB; Skoruvíkurbjarg, GRY; Grímsey, HVB; Hælavíkurbjarg, LBJ; Látrabjarg, og EEY; Elliðaey í Vestmannaeyjum.
Dæmi um upplýsingar sem fást með notkun vöktunarmyndavéla. Hér má sjá (A) upphaf varptíma hjá ritu vorið 2019, og (B) þróun á upphafi varptímans frá 2016 til 2019. SVB; Skoruvíkurbjarg, GRY; Grímsey, HVB; Hælavíkurbjarg, LBJ; Látrabjarg, og EEY; Elliðaey í Vestmannaeyjum.

 

Einn af fjölmörgum liðum langtímavöktunar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn eru talningar á vatnafuglum á vorin og hefur Náttúrustofan aðstoðað við þær sum árin. Aðaltalningin fer fram eftir miðjan maí, þar sem allir vatnafuglar eru taldir, en þá eru margar gráandakollur lagstar á hreiður og kynjahlutfallið í þeirri talningu því skekkt. Gráendur hafa af þessum sökum einnig verið taldar á einum degi snemma í maí. Gráendur eru aðrar endur en kafendur; rauðhöfðaönd, urtönd, gargönd, stokkönd, grafönd og skeiðönd. Ekki er um heildartalningu að ræða en þó er farið sem víðast og allar gráendur á opnum svæðum taldar. Í gær, 6. maí, sá Náttúrustofan um þessa talningu. Mikið fuglalíf var á vatninu en enn er ís á um hálfum Syðriflóa. Einn af okkar síðustu farfuglum, óðinshani (eða sundhani eins og hann er kallaður í Mývatnssveit), var mættur en 93 fuglar sáust víðsvegar á vatninu. Einnig sást til sjaldgæfari flækingsfugla eins og kanadagæs, skutulönd, hringönd og kúfönd.

Horft yfir Mývatn ofan af Fellshól.
Horft yfir Mývatn ofan af Fellshól.

 

Fuglar á vökum taldir við Haganes.
Fuglar á vökum taldir við Haganes.

 

Sissa ritari smellir mynd af Framengjum. Í fjarska eru Bláfjall (t.v.) og Sellandafjall (t.h.).
Sissa ritari smellir mynd af Framengjum. Í fjarska eru Bláfjall (t.v.) og Sellandafjall (t.h.).

 

Óðinshanakerla, nýkomin frá vetrarstöðvum í Kyrrahafi.
Óðinshanakerla, nýkomin frá vetrarstöðvum í Kyrrahafi.

 

Kanadagæs á Ytri Kollhólatjörn, við Neslandavík.
Kanadagæs á Ytri Kollhólatjörn, við Neslandavík.

 

Kúfandarsteggur á Neslandavík. Amerískur flækingur nauðalíkur duggönd.
Kúfandarsteggur á Neslandavík. Amerískur flækingur nauðalíkur duggönd.

 

 

 

 

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin