Vöktun vatnalífríkis

Vöktun lífríkis er rannsóknaraðferð sem notuð hefur verið í auknum mæli á síðustu árum. Vöktun felur í sér athugun á ákveðnum þáttum í lífríkinu sem endurtekin er með reglulegu millibili, yfir langt tímabil. Mikilvægi þeirra gagna sem fást með vöktununum verður meira eftir því sem athugunum fjölgar. Ástæðan er fyrst og fremst tvíþætt, annars vegar sú að sumar breytingar gerast svo hægt að eftir þeim verður ekki tekið nema horft sé yfir langan tíma. Hins vegar eru aðrar breytingar svo örar og óreglulegar að ekki verður hægt að mæla leitni fyrr en eftir langan tíma.

Náttúrustofa Norðausturlands heldur úti nokkrum vöktunarverkefnum og er eitt þeirra vöktun vatnalífríkis. Eins og er falla 5 vötn undir þetta vöktunarverkefni, Miklavatn og Sílalækjarvatn í Aðaldal og Víkingavatn, Skjálftavatn og Ástjörn í Kelduhverfi. Þeir þættir sem skoðaðir eru í vötnunum eru:

• Mýflugur eru athugaðar með því að veiða þær í flugnagildrur sem eru staðsettar við öll vötnin. Aflinn er greindur til tegunda og fjöldi ákvarðaður. Myndin hér að neðan er af flugnagildru við Miklavatn.

Flugnagildra1

• Krabbadýr eru veidd í krabbadýragildrur sem lagðar eru í vötnin einu sinni á sumri og látnar liggja í sólarhring. Það sem veiðist er talið og greint til tegunda. Myndin hér að neðan sýnir krabbadýragildru á botni Víkingavatns.

Voktun-vatnalifs1

• Hornsíli eru veidd síðsumars í þar til gerðar gildrur en einungis í Víkingavatni. Hornsílin eru lengdarmæld og krufin, kyn og kynþroski ákvarðaður ásamt sníkjudýrabyrði. Magasýni eru einnig tekin. Á myndinni hér að neðan er verið að taka upp hornsílagildrur úr Víkingavatni.

Voktun-vatnalifs2

• Botnlífverur eru kannaðar með botnsýnataka einu sinni á sumri. Botnset er skoðað, sigtað og lífverur greindar og taldar. Að neðan er mynd af botnseti úr Víkingavatni.

Voktun-vatnalifs3

• Þekja botngróðurs er ákvörðuð að næsta tug prósenta og tegundir greindar. Þetta er gert með 200 m millibili og á sömu stöðum er dýpi og sjóndýpi ákvarðað.

• Einu sinni í mánuði, yfir sumartímann, eru leiðni, sýrustig, hitastig og blaðgræna mæld í vötnunum.

Þessi vatnavöktun er svo nátengd vöktun vatnafugla sem Náttúrustofan sér um en sú vöktun fer fram á mun fleiri vötnum og votlendissvæðum í Þingeyjarsýslum og má sjá niðurstöður þeirrar vöktunar hér á heimasíðu Náttúrustofunnar.

Þar sem vatnavöktunin er nýlega farin af stað er ekki mikið um niðurstöður enn sem komið er. Þó má geta þess að mjög lítið veiddist af hornsílum í Víkingavatni í ár. Ekki er vitað hvort þetta hrun í hornsílastofninum er einstakt eða hvort sveiflur í fjölda hornsíla milli ára geti verið miklar en framtíðin mun væntanlega leiða það í ljós.

Þessi skortur á hornsílum hefur svo að öllum líkindum orðið til þess að flórgoðavarp var afar lélegt á Víkingavatni í ár og fáir ungar komust á legg en hornsíli er aðalfæða flórgoðans. Fróðlegt verður að fylgjast með því í framtíðinni hve hornsílin verða fljót að ná sér aftur á strik og eins hvernig flórgoðinn bregst á við.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin