Vöktun ritubyggða í Þingeyjarsýslum

Vöktun ritubyggða í Saltvík við Skjálfanda og í Skoruvíkurbjargi er einn liður í verkefninu „fuglavöktun í Þingeyjarsýslum“ sem kostað hefur verið af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu (áður umhverfisráðuneytið) frá 2009 með milligöngu Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2021.

Fuglar endurspegla gjarnan ástand þeirra vistkerfa sem þeir byggja afkomu sína á. Varpárangur til lengri tíma getur spáð fyrir um stofnstærðarbreytingar og gefið vísbendingar, ekki aðeins ástand stofns, heldur einnig ástand og þróun mismunandi vistkerfa. Langtímavöktun þarf til að greina milli eðlilegs breytileika sem fylgir náttúrulegum sveiflum í t.d. fæðuframboði og veðurfari annarsvegar og breyttu ástandi tegundar eða stofns til lengri tíma (hnignun eða bati) hinsvegar. Slíkar langtímabreytingar í ákveðna átt skýrast af t.d. loftslagsbreytingum eða búsvæðaeyðingu.
Langtíma vöktunarrannsóknir eru því áhrifarík leið til að stuðla að vernd náttúrunnar og skynsamlegri nýtingu hennar þar sem það á við.

Eins og gert er árlega hafa björgin í Skoruvík og Saltvík verið mynduð í sumar og hefur frumvinnsla á þeim gögnum farið fram. Reyndist varpárangur ritu lítill á báðum stöðum eða 0,4
ungar/hreiður (n=588 hreiður) í Skoruvíkurbjargi og 0,67 ungar/hreiður í Saltvík (n=149 hreiður). Ekki er vitað hvað hefur valdið lítilli nýliðun á þessu svæði en ekki er ólíklegt að það tengist fæðuframboði.

Vestan stórviðri var talið geta skýrt fæð unga og hreiðra á Snæfellsnesi og við Breiðafjörð (sjá nánar á heimasíðu Náttúrustofu Vesturlands) en Náttúrustofa Vesturlands sér um myndatöku fuglabjarga á þeim landsvæðum.

Rita er langlíf tegund (elsta merkta rita í Evrópu 28 ára) sem verpir fáum eggjum (1-3) á hverju ári. Léleg nýliðun í einstaka árum hefur lítil áhrif á stofnstærð en jafnframt tekur langan tíma
að rétta úr kútnum ef fækkun verður í stofninum. Til að átta sig á og skýra ástand stofnsins þarf að fylgjast með varpárangri til lengri tíma.

Ný samantekt um bjargfuglavöktunina á landsvísu er væntanleg síðar í haust og næsta samantekt um fuglavöktun í Þingvallasýslum mun líta dagsins ljós í lok árs 2023.

Nánar um breytingar í varpárangri ritu í Þingeyjarsýslum til lengri tíma hér

Nánar um samanburð á nýliðun ritu og annarra bjargfugla á landsvísu hér

Ritur (Rissa tridactyla) við Saltvík í Skjálfanda

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin