Náttúrustofa Norðausturlands tekur þátt í stóru vöktunarverkefni sem hefur þau markmið að vakta náttúrufar m.t.t. álags ferðamanna, einkum á náttúruverndarsvæðum.
Vöktunin er unnin að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa á landinu, Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og þjóðgarðsins á Þingvöllum. Náttúrufræðistofnun Íslands heldur utan um og er ábyrgðaraðili verkefnisins. Verkefnið hófst árið 2019 með undirbúningi og gagnaöflun og síðastliðinn vetur var aðferðafræði verkefnisins þróuð og vöktunarverkefni skilgreind. Vöktunarverkefni hófust svo í fyrsta sinn vor, sumar og haust 2020. Áhersla er lögð á að vakta áhrif ferðamanna á vistgerðir og plöntur, fugla, spendýr og jarðminjar.

Áhrif ferðamanna á náttúru eru þekkt víða og birtast með ýmsum hætti. Neikvæð áhrif vegna umferðar ferðamanna geta m.a. verið gróðurskemmdir, gróður- og jarðvegseyðing, skemmdir á jarðminjum, mengun, skerðing búsvæða og truflun á dýralífi með margvíslegum afleiðingum fyrir viðkomandi tegundir. Hversu mikil og neikvæð áhrifin verða, veltur ekki aðeins á fjölda gesta sem heimsækja svæðin heldur einnig á hegðun þeirra og dreifingu í tíma og rúmi, ásamt þeirri stýringu og innviðauppbyggingu sem er til staðar á svæðunum. Ein helsta áskorun verkefnisins er að greina þá þætti sem mæla áhrifin af álagi ferðamanna sem best, því þeir eru mikilvægastir.



Á starfssvæði Náttúrustofu Norðausturlands eru mörg vinsæl ferðamannasvæði þar sem náttúrufar svæðanna er undir álagi vegna umferðar ferðamanna. Mörg svæðin eru friðlýst og eru þá í umsjón stofnana en einnig eru á svæðinu vinsælir áfangastaðir sem ekki njóta verndar. Á svæðinu eru einnig staðir sem eru líklegir til að verða vinsælir áfangastaðir ferðamanna þegar fram í sækir og er mikilvægt að fylgjast með áhrifum ferðamanna á náttúru þeirra staða frá upphafi.
Sumarið 2020 lagði Náttúrustofan upp með 11 verkefni á sínu starfssvæði. Um var að ræða verkefni þar sem vöktuð eru áhrif umferðar ferðamanna á jarðminjar, gróður eða fugla og einnig verkefni sem fólu í sér úttekt svæða og mat á þörf fyrir vöktun. Í Norðurþingi hófust vöktunarverkefni í náttúruvættinu Dettifoss, Selfoss, Hafragilsfoss og nágrenni og í Jökulsárgljúfrum í Vatnajökulsþjóðgarði. Í Skútustaðahreppi hófust vöktunarverkefni í Herðubreiðarlindum, Öskju og Holuhrauni sem eru í Vatnajökulsþjóðgarði, í náttúruvættunum Dimmuborgum og Seljahjallagili, við Leirhnjúk, Víti við Kröflu og Hveri (Hverarönd). Í Þingeyjarsveit hófust verkefni við náttúruvættið Goðafoss, við Aldeyjarfoss og á Þeistareykjum og nágrenni. Í Tjörneshreppi voru Tjörneslögin við Tungulendingu tekin út. Ýmsar aðferðir eru notaðar við vöktunina, allt eftir viðfangsefni vöktunar og þeim þáttum sem mældir eru. Það geta verið endurtekin ljósmyndun, ljósmyndun með flygildi, mælingar og mat á gróðurþekju, GPS hnitun, talningar og fleira.
Næstu skref í verkefninu er að leggja mat á árangur af vinnu sumarsins með öðrum stofnunum, vinna úr niðurstöðum og í framhaldinu skerpa á einstökum aðferðum og verkefnum fyrir vöktun næsta árs og ára. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá verkefnum sumarsins 2020.





























