Vöktun náttúruverndarsvæða sumarið 2022

Árið 2019 hófst verkefnið Vöktun náttúruverndarsvæða en það er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa, Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og þjóðgarðsins á Þingvöllum. Náttúrufræðistofnun Íslands heldur utan um verkefnið en gagnasöfnun er að mestu í höndum náttúrustofa. Áhersla er lögð á að vakta áhrif ferðamanna á vistgerðir og plöntur, fugla, spendýr og jarðminjar. Markmiðið er að koma af stað heildstæðri vöktunaráætlun á landsvísu um vöktun náttúruminja á náttúruverndarsvæðum og öðrum svæðum sem eru undir álagi vegna ágangs ferðamanna.

Fyrsta árið fór í undirbúning verkefnisins en sumurin 2020 og 2021 lagði Náttúrustofa Norðausturlands áherslu á að koma af stað vöktunarverkefnum sem vakta áhrif ferðamanna á jarðminjar, gróður og fugla á vinsælum ferðamannastöðum á Norðausturlandi.

Sumarið 2022 var á landsvísu lögð áhersla á vöktun vistgerða á landi, fuglavöktun og ástandsmat á þekktum stöðum steingervinga.

Vöktun landvistgerða fól í sér að endurtaka gróðurmælingar á eldri gróðursniðum sem voru upphaflega mæld af Náttúrufræðistofnun Íslands á árunum 2012 og 2013 eða fyrr, þá sem hluti af flokkun vistgerða á landi. Í sumar fóru fram gróðurmælingar í forgangsvistgerðum á náttúruverndarsvæðum, svæðum sem hafa verið tilnefnd inn á B-hluta náttúruminjaskrár eða öðrum svæðum með verðmætar landvistgerðir. Náttúrustofan gerði gróðurmælingar í fjórtán gróðursniðum á Norðausturlandi, þar af voru tíu eldri snið en fjögur ný snið á nýjum svæðum.

Gróðursnið í sjávarfitjungsvist við Hörgárósa
Gróðurmæling í rimamýravist á Fljótsheiði.

Náttúrustofan kom að fjórum fuglavöktunarverkefnum á svæðinu í sumar sem eru hluti af vöktun náttúruverndarsvæða. Á Ástjörn í Jökulsárgljúfrum var áfram fylgst með varpi flórgoða líkt og tvö undanfarin sumar en markmið þess verkefnis var að meta hvort flórgoði verði fyrir truflun af völdum ferðamanna og hvort það hafi áhrif á varpafkomu og þéttleika. Sumarið 2022 var síðasta sumarið sem fylgst var með flórgoða á Ástjörn með þessum hætti en árlegar talningar á flórgoða á Ástjörn munu halda áfram.

Myndavél komið fyrir við flórgoðahreiður á Ástjörn.

Á Melrakkasléttu fóru fram mófuglatalningar á tveimur sniðum sem Náttúrufræðistofnun Íslands hafði áður talið á samhliða flokkun vistgerða á landi en þar var lagt mat á hvaða fuglalíf einkennir hverja vistgerð.  Á Melrakkasléttu voru í sumar einnig gerðar vatnafuglatalningar á um 45 vötnum og tjörnum, annars vegar á varptíma og hinsvegar á fellitíma til að skoða ungaframleiðslu. Fjórða verkefnið var talning vaðfugla á fartíma í sex víkum í nágrenni Raufarhafnar og voru fuglarnir taldir sex sinnum á tímabilinu.

Í Hljóðaklettum og í náttúruvættinu Dettifoss, Selfoss, Hafragilsfoss og nágrenni austan ár voru áhrif ferðamanna á gróður og jarðminjar vöktuð með ljósmyndatöku. Engir steingervingastaðir voru skoðaðir á Norðausturlandi þetta árið og bíður það verkefni næsta sumars.

Í vetur verður verkefnið þróað enn frekar og unnið að heildstæðri vöktunaráætlun á landsvísu.

Fjörur Melrakkasléttu eru mikilvægur viðkomu- og fæðuöflunarstaður vaðfugla á fartíma.

Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin