Dagana 3.til 8. október 2023 gerðu starfsmenn NNA úttekt á þéttleika hagamúsa í landi Rifs á Melrakkasléttu. Úttektin er liður í samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa á landinu um vöktun lykilþátta á náttúruverndarsvæðum, sem sett var á laggirnar að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 2019.
Hagmúsin hefur ekki verið vöktuð að staðaldri á Íslandi áður og aldrei jafn víða um land og nú. Þéttleiki þeirra hefur hins vegar verið mældur á ólíkum búsvæðum yfir styttri tímabil í gegnum tíðina. Hagamúsin er eitt fárra landspendýra á Íslandi sem er nægjanlega staðbundið og algengt til að hægt sé að mæla þéttleika þess með litlu átaki (ódýrt og fljótlegt) á afmörkuðum svæðum. Hún hentar því vel fyrir þetta verkefni.
Athuganirnar fara þannig fram að lífgildrur eru settar út með reglulegu millibili innan ákveðinnar vistgerðar og svæðis. Í þessu verkefni eru lífgildrur á hverju athugunarsvæði hundrað talsins og 20-30 metrar á milli þeirra (breytilegt eftir búsvæðum) svo ólíklegt er að mýs, sem á annað borð halda til á svæðinu, rambi ekki á einhverja þeirra innan einhverra daga. Vitjað er um gildrurnar daglega næstu fimm daga eftir að þær eru lagðar út. Gildrurnar eru einangraðar með sauðaull og innihalda lágmarks fóður til að músum verði ekki meint af veru sinni þar í sólahring. Þegar mús veiðist í gildru er hún merkt, kyngreind og vigtuð. Það er þó ekki fyrr en sömu einstaklingar fara að veiðast aftur (endurheimtur) sem nýtanleg gögn um þéttleika fara að safnast.
Ákveðinn lágmarksfjölda endurheimta þarf til að vinna með gögnin tölfræðilega og því er veitt á haustin þegar stofninn er stærstur. Þéttleiki er breytilegur milli ára og því gefur eitt ár takmarkaðar upplýsingar um ástand stofns, þ.e. hvort hann er stöðugur, í vexti eða í hnignun. Langtímabreytingar í ákveðna átt (langtímaleitni) benda oft til manngerðra umhverfisáhrifa, t.d. gróðurhúsaáhrifa og rýrnandi gæða eða eyðingu búsvæða. Það þarf langtímavöktun í mörg ár eða áratugi til að mæla slíkar breytingar. Langtímavöktun er því aflmikið verkfæri í allri náttúruvernd.
Það er skemmst frá því að segja að engin mús fékkst til að mæta í lífgildru í þá fimm daga sem vitjað var um mýs á Rifi. Niðurstöðurnar eru forvitnilegar þó alltaf sé svekkjandi þegar ekkert veiðist. Veiðar í öðrum landshlutum hafa gefið tölvuverðan breytileika í fjölda músa eins og vænta mátti en hvergi annarsstaðar þverneituðu þær að láta telja sig með eins afgerandi hætti og á Rifi.
Melrakkaslétta var eina vöktunarsvæðið í þessu verkefni sem staðsett var í mólendi. Annarsstaðar fer vöktunin fram í birkiskógavist en lítið er aðgengilegt af henni á Sléttu. Þéttleiki músa í mólendi er lítt þekkt. Á Íslandi er auk þess að finna norður- og vestur mörk útbreiðslu hagamúsa í heiminum. Mýs á Rifi yrðu því fulltrúar norðlægustu hagamúsa í heimi. Þetta tvennt gerir hagamúsaathuganir á þessu svæði áhugaverðar en hugsanlega þarf að endurskoða staðsetningu athugunarsvæðisins næsta haust og vona að mýs annars staðar á Norðausturlandi séu samstarfsfúsari eða allavega til staðar.
