Sumarið 2016 samdi Umhverfisstofnun við Náttúrustofu Norðausturlands um árlega vöktun fimm tegunda bjargfugla á landsvísu til að styrkja grundvöll veiðistjórnunar. Um er að ræða fýl Fulmarus glacialis og ritu Rissa tridactyla sem veiða má frá 1. september til 15. mars, og langvíu Uria aalge, stuttnefju Uria lomvia og álku Alca torda sem veiða má frá 1. september til 25. apríl. Verkefnisstjórn er í höndum Náttúrustofu Norðausturlands en verkefnið er unnið í samvinnu við Náttúrustofur Vestfjarða, – Vesturlands, – Suðvesturlands og – Suðurlands og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi. Verkefnið byggir á aðferðafræði og grunnvinnu Arnþórs Garðarssonar, helsta frumkvöðuls bjargfuglavöktunar hér á landi.
Fylgst er með bjargfuglum af fyrir fram ákveðnum vöktunarsniðum vítt og breitt um landið og er sömu aðferð beitt á öllum stöðum. Sniðin eru mynduð í júní eða fyrrihluta júlí frá nákvæmlega sama stað á hverju ári og um leið er hlutdeild svartfuglategundanna metin á sniðinu með beinum athugunum. Einnig eru hlutföll svartfugla metin á sjó fyrir utan talningarsniðin. Síðar er svo nákvæmur heildarfjöldi svartfugla á bjargsniðum talinn af ljósmyndum í tölvu. Að öllu jöfnu er fjöldi hverrar tegundar reiknaður út frá heildarfjölda fugla á sniði samkvæmt talningu á ljósmynd og hlutdeild í bjargi. Í undantekningartilfellum hefur hlutdeild tegunda ekki verið metin á staðnum og hafa fuglar því verið greindir til tegunda af myndum sé upplausn ljósmynda nógu góð. Það var gert í Papey að þessu sinni.
Samsetta myndin hér að neðan af vöktunarsniði nr. 4 í Papey var tekin í júní síðastliðnum og sýnir á skemmtilegan hátt dreifingu mismunandi bjargfuglategunda í bjarginu. Fuglar eru merktir á mynd við talningu í tölvu og mismunandi litir notaðir eftir tegundum. Langvíur eru grænar (1165), álkur gular (20), stuttnefjan appelsínugul (1), fýlssetur blá (40) og rituhreiður rauð (219). Stækka má myndina með því að smella á hana. Talningum af vöktunarsniðum er nú lokið og sýna þær áhugaverðar niðurstöður sem kynntar verða síðar en nú stendur yfir úrvinnsla um varpárangur langvíu og stuttnefju. Hann er metinn með aðstoð vöktunarmyndavéla sem settar voru upp á fimm stöðum umhverfis landið fyrr á þessu ári.