Vöktun á Lónum í Kelduhverfi

Hraun þekja Kelduhverfi sunnan sanda. Grunnvatn streymir undan hrauninu á mörgum stöðum og mjög mikið grunnvatnsstreymi er út í Lónin en þar kemur fram sprungubelti sem kennt er við Þeistareyki. Um Lónsós fara um 19 m3/s af ferskvatni. Volgt vatn sprettur einnig fram í gjám og lindum og er þar trúlega um að ræða afrennslisstraum frá háhitasvæðinu á Þeistareykjum. Jarðhitasvæði er í sandinum við norðaustanverð Lónin og eykst hiti grunnvatns norður með Lónunum.

Hópar andfugla halda sig til á Lónunum á veturna, m.a. hvinendur, hávella og æðarfugl en síðastnefnda tegundin verpir þar í talsverðum mæli.

Fiskeldi hófst með tilraunakvíum í Lónum árið 1978. Upp úr 1980 var fyrirtækið ÍSNÓ hf. stofnað og rak það starfsemi í Lónum allt fram til 1992 þar til það varð gjaldþrota. Í kjölfarið keyptu heimamenn eignir þrotabúsins og stofnuðu fyrirtækið Rifós hf sem hefur verið rekið þar allar götur síðan. Öll skilyrði til fiskeldis eru talin ákjósanleg í Lónunum. Mikið grunnvatnsstreymi, heitar uppsprettur og stöðug vatnsskipti í Lónunum.  Lonin

Að frumkvæði fiskeldisfyrirtækisins Rifós hf í Kelduhverfi hefur Náttúrustofa Norðausturlands hafið vöktun á nokkrum lífríkisþáttum í Lónunum. Vöktunin tekur á frumframleiðni og eðliseiginleikum vatnsins ásamt fuglalífi. Vatnssýni eru tekin vikulega og fuglar eru taldir að vetri, vori og síðsumars.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin