Vogmær

Már Höskuldsson hafði samband við Náttúrustofuna miðvikudaginn 3. jan. sl. og lét vita að hann hefði fundið nokkrar vogmeyjar í Héðinsvík milli Reyðarár og Bakkahöfða. Starfsmenn Náttúrustofunnar fóru á staðinn og fundu þar 35 vogmeyjar sem flestar voru í kringum 1 metra á lengd. Meirihluti þeirra var illa farinn, hausinn oft dottinn af og hreistur farið.

Vogmaer
Hilmar Másson með eina vogmeyjuna

Vogmaer1

Vogmær (Trachipterus arcticus) er ein af níu tegundum fiska af vogmeyjarætt (Trachipteridae) og sú eina af þessari ætt sem finnst við Ísland. Vogmær er afar sérkennilegur fiskur í útliti. Hún verður allt að 3 metrar að lengd en er afar þunnvaxin. Einn langur bakuggi gengur eftir endilöngu bakinu og er hann rauður á litinn eins og hinir örsmáu eyruggar og kviðuggar. Sporðurinn er líka rauður og vísar aðeins upp á við. Sjálf er vogmeyjan silfurgrá á lit. Augun eru stór og munnurinn sérstakur þar sem hann lengist fram í trjónu þegar hann er opnaður.

Vogmaer2

Vogmaer3

Samkvæmt Jónbirni Pálssyni fiskifræðingi þá er þetta uppsjávarfiskur sem lifir sunnan við land og kemur stöku sinnum í veiðarfæri sjómanna. Vogmeyjar reka stundum á land en oftast eru það stakir fiskar. Fyrir kemur þó að þær reki á land í torfum eins og nú hefur gerst. Þetta er merkilegt í ljósi þess að 9 vogmeyjar fundust reknar á fjöru á Skagaströnd á nýjársdag. Í haust veiddist líka óvenju mikið af vogmeyjum á Dormbanka af skipum sem þar voru á kolmunnaveiðum. Líklegt er því að þær hafi borist með hlýjum straumum hér norður fyrir land og drepist þegar í kaldari sjó var komið.

Í Grímsey var sú trú að ef vogmey sem stundum er kölluð vogmeri ræki á land skyldi annað hvort flytja hana á haf út eða brenna með þeim hætti að reykinn legði á haf út. Ef til hvorugra þessara ráða yrði gripið mátti búast við skipskaða. Nú er bara að vona að þetta gildi ekki um vogmeyjar sem reka á land á Tjörnesi.

 


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin