Rannsóknir sem nú standa yfir á stofnvistfræði íslenskra jaðrakana Limosa limosa islandica hafa m.a. varpað ljósi á ýmsa þætti í farmynstri þeirra sem áður voru óþekktir. Að sögn Tómasar G. Gunnarssonar doktorsnema í dýravistfræði við University of East Anglia í Englandi hefur ýmislegt forvitnilegt komið í ljós varðandi farhegðun íslenskra jaðrakana. Upplýsinga um farhegðun er safnað með því að veiða og litmerkja jaðrakana þannig að hægt sé að þekkja einstaklinga á færi. Jaðrakanarnir eru merktir með sérstökum litkóðum eins og sjá má dæmi um á myndinni hér til hliðar. Litmerkingin lesist svona: Appelsínugult (orange) yfir grænu ofan hnés á vinstri fæti. Rautt yfir hvítu merki með X (geta verið önnur tákn grafin í merki) ofan hnés á hægri fæti. Stálmerki neðan hnés á vinstri fæti.
Sem dæmi um upplýsingar sem fengist hafa úr þessum rannsóknum má nefna jaðrakan sem talið er að eigi sér óðal í Öxarfirði og hefur sérlega mikinn áhuga á að ferðast um Ísland. Þessi jaðrakan var merktur í Grafarvogi þann 25. apríl árið 2000 en síðan þá hafa upplýsingar um ferðir hans bent til þess að hann fari hringferð um Ísland á hverju ári auk þess að skella sér í vetrarfrí til Írlands. Í seinnihluta apríl kemur þessi jaðrakan við á Suður- og Vesturlandi áður en hann skellir sér norður í Öxarfjörðinn en þar hefur hann sést á varptíma og telst því sannur Þingeyingur. Svo virðist sem hann hafi þörf fyrir að koma aðeins við í höfuðborginni á vorin áður en hann fer norður í sveitina en auk þess að hafa verið merktur þar árið 2000 sást hann þar einnig snemma vors árið eftir. Snemma í vor sást hann síðast við Hegranes í Skagafirði, líklega á leið sinni austur um eftir að hafa farið í gegnum Suður- eða Vesturland. Síðsumars tekur hann sig upp og flýgur austur og suður í gegnum Höfn í Hornafirði. Yfir veturinn hefur þessi þingeyski ferðalangur það náðugt í mildara loftslagi á S-Írlandi en á leið sinni þangað virðist hann koma við á NV-Englandi.
Eftirfarandi upplýsingar hafa borist um ferðir þessa fiðraða Þingeyings:
KK merktur:
24.4.00 | Grafarvogur |
Séður:
25.4.00 | Grafarvogur | Faxafloi |
26.4.00 | Grafarvogur | Faxafloi |
20.8.00 | Höfn, East Iceland | E ice |
2.5.01 | Grafarvogur, Reykjavík, Iceland | Faxafloi |
9.8.01 | Höfn, East Iceland | E ice |
21.1.03 | Wexford Slobs, Co. Wexford, Ireland | S Ire |
25.4.03 | Vogalækur, Mýrum | Faxafloi |
20.5.03 | Silfurstjarnan, Öxarfirði, NE-Iceland | NE Ice |
27.5.03 | Silfurstjarnan, Öxarfirði, NE-Iceland | NE Ice |
25.7.03 | Dee Estuary, Cheshire | NW Eng |
22.4.04 | Hegranes, Skagafirði | N Ice |
Rétt er að skora á fólk ef það verður vart við litmerkta jaðrakana að koma þeim upplýsingum til Tómasar á netfangið t.gunnarsson@uea.ac.uk Einnig er hægt að koma upplýsingum til Náttúrustofunnar í síma 464 0450. Upplýsingar eins og þær af Þingeyingnum sem að ofan var getið byggja á því að almenningur horfi eftir fuglum og lesi á merki séu þeir með slík.
Ef fólk hefur áhuga á því að vita meira um rannsóknir á íslenskum jaðrakönum má smella á eftirfarandi vefslóð http://www.uea.ac.uk/~b072834/