Nýlega birtist vísindagrein í tímaritinu Diversity and Distributions þar sem gerð var grein fyrir því hvar ritur úr fjölmörgum vörpum við Norður Atlantshaf, m.a. íslenskar, halda sig á veturna. Greinin er afrakstur alþjóðlegs samtsarfs um rannsóknir á dreifingu rita utan varptíma og hefur Náttúrustofa Norðausturlands haft umsjón með þeim hér á landi. Greinina má nálgast með að smella hér.
Ritur voru merktar með svokölluðum dægurritum (e. Geolocator) í 19 vörpum við Norður Atlantshaf árin 2008 og 2009, þ.á.m. í Hafnarhólma í Borgarfirði eystri árið 2009. Dægurritarnir mæla birtutíma og gefa þannig upp staðsetningu. Þeim þarf að ná aftur til þess að ná upplýsingunum og voru riturnar því veiddar aftur árið 2010. Í Hafnarhólma náðust 13 dægurritar aftur, en byggja niðurstöður greinarinnar á gögnum frá alls 136 dægurritum.
Helstu niðurstöður sem fram koma í greininni eru að flestar ritur í Norður Atlantshafi virðast eyða hávetrinum á hafsvæðinu vestur af Nýfundnalandi og Labrador, allt vestur undir mið-Atlantshafshrygginn. Héldu þær sig bæði á landgrunni og úti á miklu dýpi. Þær íslensku fóru að ísröndinni á milli Grænlands og Íslands að loknu varpi og voru komnar á vetrarstöðvar undan Nýfundnalandi og Labrador í nóvember. Í desember var talsverð skörun á dreifingu rita sem héldu sig á þessu hafsvæði, en mest var skörunin á milli fugla frá nálægum byggðum. Dreifing íslensku ritanna skaraðist mest við ritur frá Røst í Noregi. Þær voru svo mættar aftur á varpstöðvarnar í apríl.
Niðurstöður rannsóknanna gefa til kynna að ritustofnar hvaðanæva að úr Atlantshafi geti verið viðkvæmir fyrir versnandi umhverfisskilyrðum, s.s. fæðubresti og mengun, í vesturhluta Atlantshafsins. Ritur hafa víða átt erfitt uppdráttar við Atlantshaf undanfarin ár, s.s. hér á Íslandi, Noregi, Færeyjum og Grænlandi og gæti skýringanna vel verið að leita á þessu hafsvæði þar sem stofnarnir koma saman yfir háveturinn. Upplýsingarnar veita alltént mikilvæga innsýn í vistfræði ritunnar í Norður Atlantshafi og skapa þannig grunn þekkingar sem mun nýtast við að skýra þróun og stuðla að markvissri vernd ritustofna í þessum heimshluta til framtíðar. Á Íslandi verpir um fjórðungur allra rita í Norður Atlantshafi, eða um 530 þúsund pör.
Á Húsavík og víðar eru ritur jafnan kallaðar skeglur, sbr. Skeglubjörg í Saltvík sunnan bæjarins. Skeglubjörg eru annað tveggja rituvarpa við Húsavík sem Náttúrustofan vaktar samkvæmt samningi við Umhverfisráðuneytið. Hitt er í Húsavíkurhöfða. Einnig fylgist Náttúrustofan með ritum í Skoruvíkurbjargi á Langanesi. Þessir staðir eru heimsóttir tvisvar yfir sumarið til að meta annars vegar fjölda hreiðra og hins vegar ungaframleiðslu.












