Vetrarkvíði í Kelduhverfi

Katrínu í Lindarbrekku brá í brún þegar henni var litið út um gluggann í gærkvöldi og svo virtist sem snjóföl væri komin fyrir utan húsið. Hún fór út og sá að þetta sem sýndist snjór var í raun eins og teppi smárra þráða sem lá yfir grasinu. Katrín tók þessa mynd af fyrirbærinu

vetrarkvíðastör

Það sem Katrín sá var í raun þræðir smárra köngulóa af ætt Voðköngulóa (Linyphiidae) sem einnig eru kallaðar dordinglar. Hér á landi er þekktar yfir 60 tegundir voðköngulóa og er þetta langstærsta ætt köngulóa hér á landi og næstum helmingur allra köngulóategunda Evrópu tilheyra henni. Þetta eru mjög smáar köngulær (4 – 10 mm) og yfirleitt dökkar á lit.  Voðköngulær finnast nánast allstaðar á jörðinni og ástæðan fyrir þessari miklu útbreiðslu þeirra er geta þeirra til að svífa um á þráð sem þær spinna. Þær klifra þá upp á strá og spinna vef upp í loftið.  Þegar þráðurinn er orðinn nógu langur og vindurinn farinn að taka í hann þá sleppir köngulóin takinu á stráinu og svífur upp í loftið.  Með þessu móti geta þær komist allt upp í 10 km hæð og borist langar leiðir.  Enda eru þær oft með fyrstu lífverunum sem nema nýtt land.  Sem dæmi um það má nefna að þær voru komnar á eyjuna Krakatá í Indónesíu örfáum mánuðum eftir að hún sprakk með þeim afleiðingum að allt líf á eyjunni eyddist. Mest ber á þessum ferðum köngulóa á haustin og ef mikið er af þeim geta þræðir þeirra orðið áberandi eins og sést á mynd Katrínar og er þetta þá kallað vetrarkvíði og talið boða harðann vetur.  Hér að neðan má sjá mynd af sortuló (Erigone atra) sem er ein algengasta köngulóin í graslendi hérlendis spinna “flugþráð”.

vetrarkvíði

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin