Vetrarfuglatalningu lokið

Árleg vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunar Íslands fór fram í fyrrihluta janúar og var þetta jafnframt í 60. skipti sem þessar talningar eiga sér stað! Aldrei áður hafa jafnmörg svæði verið talin á Norðausturlandi og nú eða 25 talsins. Það kom því ekki á óvart að fjöldi fugla var með mesta móti, eða 31.858 af 46 tegundum (auk alianda og ógreindra fugla sem voru 163).

Haftyrdill
Slæðingur af haftyrðli Alle alle sást að þessu sinni

Fjöldi tegunda var þó meiri í talningunum veturna 2009/10 (53 tegundir og yfir 23.000 fuglar) og 2010/11 (47 tegundir og rúmlega 14.500 fuglar). Mismunandi fjöldi fugla þessi ár endurspeglar að vissu leyti fjölda svæða sem voru talin (21 svæði 2009/10 og 17 svæði 2010/11). Að þessu sinni voru talin fimm ný strandsvæði, eitt á Þórshöfn og fjögur sem náðu yfir stóran hluta Austur-Sléttu (frá Hestvík austur í Vog). Það er því ekki að undra að æðarfuglinn kom sterkastur út úr þessari vetrarfuglatalningu, en samtals sáust 19.437 slíkir eða um 61% af heildarfjölda fugla sem er aðeins hærra hlutfall en síðustu ár. Nánar má lesa um niðurstöður talningu í töflunni hér fyrir neðan (smellið á hana til að stækka hana).

talning_2011_2003183507

Öfugt við undanfarin tvö ár bar nú lítið á flækingsfuglum enda komu mjög fáir á norðanvert landið í haust. Þrír æðarkóngar (einn bliki og tvær kollur) sáust við Húsavík, tvær hvinendur á Litluá í Kelduhverfi og aðrar tvær á Mývatni. Þrír gráhegrar voru sömuleiðis á Litluá og glóbrystingar sáust á þremur stöðum (Þórshöfn, Húsavík og í Aðaldal). Erlendir vetursetuþrestir voru mjög fáir (10 svartir og 3 gráir) en glókollar voru aðeins þrír (stakur fugl á Húsavík og tveir í Reykjadal). Rauðhöfðaendur, sem áður hafa verið í kringum 20 frá árinu 2008, voru nú 51 talsins. Vart var við tvo hópa auk stakra fugla víða en það er alveg nýtilkomið að þær sjáist í slíku magni á Norðausturlandi og verður fróðlegt að fylgjast með þróuninni á næstu árum. Hrafnar voru aðeins fleiri en undangengin tvö ár og snjótittlingar næstum tvöfalt fleiri en á sama tímabili, en það má væntanlega rekja til vetrartíðarinnar sem við höfum fengið að kynnast undanfarnar vikur.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur við niðurstöðum talninga en lesa má meira um þessar vetrarfuglatalningar sem og skoða niðurstöður á landsvísu aftur til 2002 á vef Náttúrufræðistofnunar. Einnig bendum við á langtímaniðurstöður talninga umhverfis Tjörnes sem sjá má á heimasíðu Náttúrustofunnar.

Talningarfólk í Þingeyjarsýslum að þessu sinni voru Aðalsteinn Örn Snæþórsson, Aðalsteinn Þórðarson, Ágúst Már Þórðarson, Benedikt Jónasson, Bergþóra Kristjánsdóttir, Birkir Fanndal, Garpur Loki Gunnarsson, Gaukur Hjartarson, Guðmundur Flosi Arnarson, Guðmundur Örn Benediktsson, Gunnar Jóhannesson, Gunnar Óli Hákonarson, Hermann Bárðarson, Jóhann Gunnarsson, Katrín Von Gunnarsdóttir, María Einarsdóttir, Snæþór Aðalsteinsson, Sólveig Illugadóttir, Svala Björgvinsdóttir, Vilhjálmur Jónasson, Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson.


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin