Vetrarfuglatalningu lokið

Nú er árlegri vetrarfuglatalningu sem fer fram kringum áramót að mestu lokið. Aldrei áður hafa jafnmörg svæði verið talin í Þingeyjarsýslum og nú eða samtals 21. Þrjú svæðanna hafa ekki verið talin áður og eru þau öll í Mývatnssveit.

Að þessu sinni sáust yfir 23.000 fuglar af 53 tegundum sem er með mesta móti á þessu svæði, samanborið við 12.185 fugla af 44 tegundum (14 svæði talin) í talningunni 2008/09. Orsakast fjölgun taldra fugla m.a. af auknum fjölda talningarsvæða að þessu sinni sem og hagstæðu veðri til talninga. Má nefna að öll strandlengjan frá Bjargarkróki við Skjálfanda austur að Lónsósi í Kelduhverfi var talin. Einnig sáust óvenjumargir flækingsfuglar sem þraukað hafa til þessa, eftir óvenjumiklar flækingakomur síðastliðið haust. Sex æðarkóngar fundust við Tjörnes, sex hvinendur og fimm gráhegrar í Kelduhverfi, eitt keldusvín og bleshæna við Kaldbakstjarnir og á Húsavík voru þrjár silkitoppur, glóbrystingur, hettusöngvari og fjallafinka. Glókollar hafa aldrei verið fleiri en einn sást á Húsavík og tólf á Laugasvæðinu í Reykjadal. Þar var einnig einn krossnefur. Fjallafinka og krossnefur hafa ekki áður sést í vetrarfuglatalningum í Þingeyjarsýslum. Hrafnsönd sást við Tjörnes, en þær eru afar sjaldgæfar í talningunum á landsvísu og hafa reyndar helst sést á ystu svæðum við Tjörnes.

Algengastur fugla var æðarfugl. Rúmlega 12.500 sáust sem er 54,3% af heildafjölda fugla. Frekari niðurstöður má lesa um í töflunni hér fyrir neðan. Svo er rétt að benda á að á þessu landssvæði er að finna hlutfallslega mestan fjölda á landsvísu af straumönd (644), hávellu (2.164), húsönd (975) og teistu (96).

vetrarfuglatalning2009

vetrarfuglatalning2009_1
Talningarsvæði við Skjálfanda, Öxarfjörð og í Kelduhverfi. Smellið á myndina til að stækka hana. Loftmynd fengin úr Google Earth forritinu.
vetrarfuglatalning2009_2
Talningarsvæði í innsveitum Suður-Þingeyjarsýslu, merkt með grænum lit. Smellið á myndina til að stækka hana. Loftmynd fengin í Google Earth forritinu.

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin