Vetrarfuglatalningar 2008 – 2009

Vetrarfuglatalningar skipulagðar af Náttúrufræðistofnun Íslands hafa verið árlegur viðburður hérlendis frá árinu 1952. Þingeyingar hafa ekki látið sitt eftir liggja í þessu frekar en mörgu öðru og verið með frá upphafi. Í vetur var talningadagurinn ákveðinn 28. desember 2008 þó sum svæði hafi verið talin á öðrum tíma. Í Þingeyjarsýslum tóku 16 aðilar þátt og töldu þeir á 14 afmörkuðum talningarsvæðum. Skilyrði til talninga á talningadaginn voru góð enda veður gott, hægviðri og léttskýjað.

Á þessum 14 svæðum í Þingeyjarsýslum sáust rúmlega 12.185 fuglar af 44 tegundum. Meira en helmingur fuglanna eða 6.431 voru æðarfuglar en sú tegund hefur í gegn um árin verið í mestum fjölda. Næst koma stokkendur sem voru 1.274 og hávellur sem voru 1.109. Stokköndin var eina tegundin sem sást á öllum svæðunum. Snjótittlingar sást á 11 svæðum en aðrar tegundir sáust á 9 eða færri svæðum hver. 18 tegundir sáust einungis á einu svæði.

Niðurstöðurnar eru nálægt meðaltali síðustu ára hvað varðar fjölda svæða, fjölda tegunda og heildarfjölda fugla. Óvenju mikið sást af rauðhöfðaönd eða 17 fuglar en vanalega sjást innan við 5 fuglar í þessum talningum hér í Þingeyjarsýslum. Þessar rauðhöfðaendur voru allar í einum hópi á Kaldbakstjörnum og eru búnar að vera þar í allan vetur. Fremur lítið sást af snjótittlingum eða 320 enda snjólétt. Fjöldi þeirra sem sést í vetrarfuglatalningum er mjög breytilegur og fer fyrst og fremst eftir snjóalögum en þeir sækja heim að bæjum þegar snjóþungt er. Lítið sást líka af húsönd eða 43 en meðaltal síðustu sex ára er um fjórum sinnum hærra. Húsendur koma fram í einhverju magni á fjórum talningasvæðum í Þingeyjarsýslum en í vetur voru einungis þrjú þeirra talin og er það hluti af skýringunni. Dreifing húsanda að vetrarlagi fer að mestu eftir ísalögum og má búast við að þær hafi verið annarsstaðar á Mývatns – Laxársvæðinu þetta árið enda búin að vera mild veðrátta vikurnar á undan talningu.

Af sjaldgæfum tegundum sem sáust að þessu sinni má nefna tvo glóbrystinga,tvo glókolla og fjórar silkitoppur á Húsavík, keldusvín við Kaldbakstjarnir, duggönd á Litluá í Kelduhverfi og tveir flórgoðar á Mývatni. Glóbrystingarnir og silkitoppurnar eru flækingar sem hafa komið í haust og náð að lifa af vegna fóðrunar í görðum og vonandi verður fólk áfram duglegt að fóðra fugla svo þeir lifi af fram á vorið. Glókollinum, sem er nýlegur varpfugl á Íslandi fækkaði verulega veturinn 2004 – 2005 vegna hruns í sitkalús sem er aðalfæða hans. Hér í Þingeyjarsýslum hefur glókollurinn sést í vetrarfuglatalningum síðan fækkunin varð og eru þetta vonandi merki þess að stofninn sé á uppleið aftur. Keldusvín, duggendur og flórgoðar eru sjaldgæfir vetrargestir í Þingeyjarsýslum og þá sérstaklega duggöndin en sú sem sást að þessu sinni virtist ekki heil heilsu og hefur því ekki getað lagt í farflug.

Hér að neðan má sjá fjölda þeirra fugla sem sáust í vetrarfuglatalningunni í Þingeyjarsýslum veturinn 2008 til 2009.

TegundFjöldi
Lómur

2

Himbrimi

1

Flórgoði

2

Dílaskarfur

102

Gráhegri

4

Álft

27

Grágæs

3

Stokkönd

1274

Grafönd

2

Urtönd

8

Rauðhöfðaönd

17

Duggönd

1

Hvinönd

4

Húsönd

43

Hávella

1109

Straumönd

432

Æðarfugl

6431

Gulönd

47

Toppönd

103

Fálki

5

Smyrill

1

Rjúpa

21

Keldusvín

1

Sendlingur

303

Silfurmáfur

520

Svartbakur

253

Hvítmáfur

12

Bjartmáfur

575

Hettumáfur

220

Rita

15

Ógr. máfur

72

Haftyrðill

9

Álka

2

Stuttnefja

6

Langvía

1

Teista

64

Ógr. svartfugl

2

Silkitoppa

4

Músarrindill

10

Glóbrystingur

2

Svartþröstur

2

Skógarþröstur

10

Snjótittlingur

320

Auðnutittlingur

24

Glókollur

2

Hrafn

117

Samtals fuglar

12185

Fjöldi tegunda

46

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin