Vetrarfuglatalning NÍ

Hinar árlegu fuglatalningar Náttúrufræðistofnunar Íslands fóru fram í fyrri hluta janúarmánaðar um allt land. Á starfssvæði Náttúrustofu Norðausturlands voru fuglar taldir á 21 svæði sem er nærri meðaltali síðustu ára. Alls sáust 17.913 fuglar af 42 tegundum. Fjöldi fugla er nærri meðallagi en hins vegar fremur fáar tegundir sem stafar af því að fáar sjaldgæfar tegundir sáust. Af tegundum sem sjást flest ár en sáust ekki að þessu sinni má nefna lóm, hvinönd, smyril, hrossagauk, branduglu og stara. Hins vegar sáust tvær skeiðendur en þær eru afar sjaldséðar að vetrarlagi.

Algengasta tegundin að venju var æðarfugl með alls 7072 einstaklinga og næst kemur silfurmáfur með 2752 fugla og svo stokkönd með 1587 fugla. Stokköndin sást á flestum svæðum eða 18 en næst kom hrafn sem var á 15 svæðum.

vetrarfuglatalningar

vetrarfuglatalningar1

Erfitt er að bera saman fjölda fugla af einstökum tegundum milli ára þar sem oft eru mikil áraskipti í fjölda þeirra. Tölurnar geta þó oft gefið vísbendingu um einhverjar breytingar sem eru að eiga sér stað. Það sem markverðast má telja er að óvenju mikið er um máfa og skiptir Húsavík þar mestu máli. Um 70% af þeim máfum sem sáust í talningunum að þessu sinni á starfssvæði Náttúrustofunnar voru á Húsavík. Þetta hlutfall hefur verið að aukast undanfarin ár, var aðeins 11% fyrir fjórum árum síðan 15%, þá 19% og í fyrra 33%. Að vetrarlagi flakka máfar um og halda sig mest við þá staði þar sem mest æti er fyrir þá og því er eðlilegt að velta fyrir sér í framhaldinu: Hvaðan fá máfarnir æti á Húsavík?

vetrarfuglatalningar2

vetrarfuglatalningar3

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin