Verndaráætlun um Vatnajökulsþjóðgarð

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður með reglugerð þann 7. júní s.l. Þjóðgarðinum er skipt upp í 4 rekstrarsvæði, norður, austur, suður og vestur. Á hverju svæði starfar svæðisráð sem er stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og þjóðgarðsverði viðkomandi svæðis til ráðgjafar. Svæðisráðin eru jafnframt ábyrg fyrir að láta gera tillögu að verndaráætlun fyrir viðkomandi svæði. Svæðisráð Norðursvæðis samdi við Náttúrustofu Norðausturlands um vinnu við verndaráætlun Norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs. Náttúrustofa Austurlands mun vinna tillögur að verndaráætlun Austursvæðis og Fræðasetur Háskólans á Höfn vinnur tillögu að verndaráætlun Suður- og Vestursvæðis þjóðgarðsins. Náttúrustofa Norðausturlands mun jafnframt halda utan um samræmingarþátt vinnunnar en nauðsynlegt er að allar stofnanirnar vinni náið saman að gerð verndaráætlunarinnar.

Í verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs verður auðlindum svæðisins lýst, þær metnar og flokkaðar og komið með tillögur að helstu markmiðum og leiðum við stjórnun svæðisins til næstu framtíðar. Áhrif verndaráætlunar á auðlindir þjóðgarðsins, stjórnun hans og skipulag, útivist og ferðaþjónustu, aðra landnotkun og samfélag verða einnig metin.

Jokulsargljufur
Jökulsárgljúfur eru nú hluti af Norðursvæði vatnajökulsþjóðgarðs.

Vinna við verndaráætlun er komin vel af stað og þann 3. október s.l. var haldinn sameiginlegur samráðs- og hugarflugsfundur í Mývatnssveit með stjórn, svæðisráðum og föstum starfsmönnum þjóðgarðsins. Á fundinum var farið yfir hin ýmsu málefni þjóðgarðsins og spunnust þar mjög góðar og gagnlegar umræður sem munu nýtast áfram inn í frekari vinnu og samráðsferli við gerð verndaráætlunar.

Svæðisráðin hafa 18 mánuði frá stofnun þjóðgarðs til að gera tillögu að verndaráætlun, hvert á sínu svæði. Að þeim tíma loknum hefur stjórn þjóðgarðsins 6 mánuði til að gera eina heildstæða verndaráætlun fyrir allan þjóðgarðinn sem gildir til 10 ára. Ljóst er að mikil vinna er framundan við gerð verndaráætlunar fyrir þetta stóra en mjög svo fjölbreytta landssvæði þar sem meðal annars þarf að samþætta hin margvíslegu og oft ólíku hagsmuni og sjónarmið ýmissa aðila.

Kverkfjoll
Kverkfjöll í Vatnajökulsþjóðgarði

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin