Verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá

Síðastliðið vor tók Náttúrustofan að sér gerð verndaráætlunar fyrir Mývatn og Laxá skv. lögum um vernd Mývatns og Laxár í S-Þingeyjarsýslu. Verkið er unnið fyrir Umhverfisstofnun í samstarfi við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn og Þekkingarsetur Þingeyinga.

Árið 2004 tóku gildi ný lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Í viðauka þeirra laga er ákvæði sem gerir ráð fyrir því að gerð skuli verndaráætlun. Verndaráætlunin tekur til Skútustaðahrepps alls ásamt 200 m breiðu svæði meðfram Laxá til ósa, þ.e. því svæði er tilheyrði eldri lögum nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður- Þingeyjarsýslu. Þó eru undanskilin Herðubreiðarfriðland og Askja. Markmið verndaráætlunarinnar er að stýra nýtingu svæðisins til framtíðar á þann hátt að vistfræðileg fjölbreytni og sérstaða svæðisins í heild verði tryggð.

Markmið nýju laganna er að stuðla að náttúruvernd á Mývatns- og Laxársvæðinu í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum. Lögin eiga að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni á vatnasviði Mývatns og Laxár ásamt verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd, einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin