Vatnavöktun – flugnagildrur

Frá árinu 2006 hefur Náttúrustofan komið fyrir flugnagildrum við Miklavatn og Sílalækjarvatn í Aðaldal og við Víkingavatn og Skjálftavatn í Kelduhverfi. Sumarið 2011 bættist síðan við flugnagildra við Ástjörn í Kelduhverfi. Tilgangurinn með starfsrækslu gildranna er að fylgjast með skordýralífi í vötnunum.

Flugnagildra1
Flugnagildra við Miklavatn.

Flugnagildrurnar eru settar upp að vori og látnar standa fram á haust en tæmdar reglulega yfir sumarið. Gildrurnar veiða flugur sem eru á sveimi við þær hverju sinni. Gildran er gerð úr plexigleri og er opinn kassi með rúðu sem rís upp úr honum miðjum. Flugur sem fljúga á glerið falla ofan í kassann sem fylltur er vatni og frostlegi. Þar varðveitast þær síðan þar til gildran er tæmd.

Flugnagildra2
Flugnagildra tekin niður og tæmd.

Það sem í gildrurnar kemur er talið og greint á rannsóknastofu. Byrjað er á að greina og telja einstaklinga helstu hópa (karl- og kvenflugur rykmýs (Chironomidae), karl- og kvenflugur bitmýs (Simuliidae) og önnur skordýr). Síðan eru karlflugur rykmýs greindar til tegunda og fjöldi einstaklinga af hverri tegund talinn.

Sveiflur í fjölda rykmýs gefa vísbendingar um sveiflur í fæðuframboði fugla og fiska í viðkomandi vatni þar sem botndýr eru þeirra helsta fæða. Þær rykmýsflugur sem í gildrurnar koma voru áður lirfur á botni vatnsins. Fjöldi þeirra er því eins konar vísitala á framboð lirfa í vatninu og getur mögulega endurspeglað t.d. ungaframleiðslu og stofnþróun vatnafugla.

flugnagildra3
Línuritið sýnir meðalfjölda veiddra flugna á dag við Miklavatn.

Á línuritinu hér að ofan má sjá dæmi um sveiflur í meðalfjölda veiddra rykmýsflugna á dag við Miklavatn í Aðaldal, frá árinu 2006 til ársins 2011. Greinilegur toppur var sumarið 2008 og hrun strax sumarið eftir. Einstaka vistkerfisbreytingar getur verið erfitt að skýra nema með langtímarannsóknum á mismunandi þáttum vistkerfisins. Náttúrustofan hefur auk rannsókna á fuglum og skordýrum hafið rannsóknir á svifi og botndýralífi í Víkingavatni og Miklavatni. Með rannsóknum á mismunandi þáttum í vistkerfi vatnanna verður hægt að halda utan um þær breytingar sem verða í þróun þeirra til lengri tíma litið.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin