Vatnamýs í Þistilfirði

Sumarið 2016 tóku ábúendur á Borgum í Þistilfirði eftir sérkennilegum kúlum við bakka Kollavíkurvatns. Á dögunum höfðu þau samband við Náttúrustofuna sem mætti á staðinn og staðfesti grun þeirra um að þarna væri um svokallaðar vatnamýs að ræða. Teknar voru myndir og sýni til nánari skoðunar.

Mikill fjöldi vatnamúsa hefur skolað upp á land.
Mikill fjöldi vatnamúsa hefur skolað upp á land.

Vatnamýs eru fremur sjaldgæf fyrirbæri á Íslandi en þær myndast þegar mosi veltist í ferskvatni vegna ölduhreyfinga í stöðuvötnum eða vegna strauma í straumvötnum. Myndast þá vöndlar sem oft verða kúlulaga en geta líka verið sívalningar eða sporöskjulaga. Vatnamýs geta verið allt frá 20 mm upp í 195 mm að þvermáli/lengd. Vatnamýsnar finnast yfirleitt við vatns- eða árbakka en í sumum tilfellum hafa þær þó fundist í sjávarfjörum og hafa þá borist til sjávar með straumvötnum.

Vatnamýs
Vatnamýs

Af vatnamúsum eru til tvenns konar afbrigði, annars vegar vöndlar úr dauðum eða deyjandi mosa og hins vegar úr lifandi mosa. Vatnamýs sem myndast hafa úr lifandi mosa hafa einungis fundist einu sinni hér á landi, við bakka Hraunsfjarðarvatns á Snæfellsnesi árið 2006. Fyrstu heimildir hér á landi um vatnamýs úr dauðum mosa eru frá árinu 1969 en þá fundust vatnamýs í tveimur vötnum, Holtavörðuvatni á Holtavörðuheiði og Hádegisvatni í Bitrufirði. Í lok árs 2015 voru fundarstaðirnir orðnir 17 talsins víðs vegar um landið, þar af fimm í Þistilfirði.

Nánar má lesa um vatnamýs hér.


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin