Varpárangur svartfugla vaktaður í Skoruvíkurbjargi

Til þessa hefur fjöldi fugla í Skoruvíkurbjargi verið talinn einu sinni á sumri til að fylgjast með stofnsveiflum. Síðsumars er farið aftur á vettvang og ungar ritu og fýla taldir og fást þannig upplýsingar um varpárangur þessara tveggja tegunda en ekki fást upplýsingar um varpárangur svartfugla með slíkum talningum enda um mjög ólíka lifnaðarhætti og uppeldisaðferðir að ræða.

Þegar ungar stuttnefju og langvíu eru um það bil tveggja vikna gamlir eru þeir sveltir þar til þeir fást til þess að stökkva fram af syllunni, í þeirri von að lenda heilir á húfi á haffletinum. Í kjölfarið sjá karlfuglarnir alfarið um ungauppeldið. Talið er að þeir syndi með þá á haf út og séu með ungunum þar til þeir verða fleygir. Þetta gerir það að verkum að ókleift er að meta varpárangur þessara tegunda með beinum athugunum öðruvísi en að vera á staðnum svo vikum skiptir.

Sumarið 2015 tók Náttúrustofan í notkun nýja myndavél sem ætluð er til vöktunar á svartfuglum í Skoruvíkurbjargi. Myndavélin er í vatnsheldum kassa og tengd við sólarrafhlöðu sem sér vélinni fyrir rafmagni. Henni var fundinn öruggur staður á nýliðnu sumri með góða yfirsýn yfir svartfuglasyllu þar sem bæði var að finna langvíur og stuttnefjur. Myndavélin mun nú leysa fyrrnefnt vandamál en hún tekur ljósmynd af syllunni með reglulegu millibili frá upphafi varptíma og þar til allir svartfuglar eru horfnir af svæðinu. Við úrvinnslu er hægt að komast að því hversu mörg pör svartfugla urpu og hversu mörg þeirra komu upp ungum fram að þeim tíma sem þeir stökkva til hafs. Ekki hefur enn verið unnið úr gögnum síðasta sumars.

Myndavélin vakir hér yfir bjargfuglum, óhult fyrir veðri og vindum.
Myndavélin vakir hér yfir bjargfuglum, óhult fyrir veðri og vindum.

 

Horft yfir rannsóknasylluna þann 24. júní 2015, kl 01:01.
Horft yfir rannsóknasylluna þann 24. júní 2015, kl 01:01.

 

Horft yfir rannsóknasylluna þann 24. júlí 2015, kl 18:09.
Horft yfir rannsóknasylluna þann 24. júlí 2015, kl 18:09.

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin