Þessa dagana eru bjargfuglar taldir af ljósmyndum sem teknar hafa verið af fyrirfram ákveðnum sniðum í björgum allt í kringum landið. Með því fæst fjöldi mismunandi tegunda á sniðunum og fjöldinn borinn saman við tölur fyrri ára. Að þessari bjargfuglavöktun koma fimm náttúrustofur víðs vegar um landið en Náttúrustofa Norðausturlands fer með verkefnisstjórn. Niðurstöður er að vænta í lok hausts.
Hér má sjá dæmi um eitt þessara sniða sem búið er að telja. Um er að ræða snið nr. 5 í Hælavíkurbjargi á Hornströndum, ljósmyndað 28. júní 2018 af Cristian Gallo hjá Náttúrustofu Vestfjarða. Sniðið er afmarkað með mjóum, rauðum línum. Mismunandi litir innan þess sýna tegundirnar, 12 fýlasetur (blátt), 208 rituhreiður (rautt), 532 langvíur (ljós-appelsínugult), 517 stuttnefjur (grænt), 17 álkur (dökk-appelsínugult) og 42 ógreindir svartfuglar (gult).
