Tveir líffræðingar bætast í starfsmannahóp Náttúrustofunnar

Rán Þórarinsdóttir og Snæþór Aðalsteinsson munu bætast í starfsmannahóp Náttúrustofunnar frá og með 1. júní n.k.

Rán er að miklu leyti uppalin í Svarfaðardal og á Akureyri og nýflutt aftur í Eyjafjörðinn, nánar tiltekið í Hörgársveit. Rán er með BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og MS gráðu í líffræði frá sama skóla. Meistaraverkefni hennar fjallaði um atferli ungahópa hjá nokkrum andategundum í Mývatnssveit. Rán er reynslumikill líffræðingur og vel kunnug starfi náttúrustofa en hún hefur starfað sem bæði sviðs- og verkefnisstjóri í dýravistfræði hjá Náttúrustofu Austurlands frá árinu 2004 til ársloka 2022.

Snæþór er uppalinn Keldhverfingur en hefur búið í Danmörku síðustu ár. Hann lauk BS gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2020 og MS gráðu í líffræði frá Árósaháskóla í Danmörku árið 2022. Meistaraverkefni Snæþórs fjallaði um vetrarstöðvar, farhegðun og varpárangur hrafnsanda í Aðaldal. Frá útskrift á síðasta ári hefur hann starfað við dýravistfræðideild Árósaháskóla við fuglarannsóknir. Snæþór þekkir vel til á Náttúrustofunni enda hefur hann starfað hjá stofunni sem sumarstarfsmaður í nokkur ár.

Við bjóðum Rán og Snæþór velkomin til starfa.

WordPress Image Lightbox Plugin