Tjaldurinn orpinn

Í morgun bættust þrjár nýjar fuglategundir á listann yfir þá fugla sem sést hafa í Bakka nú í vor. Þetta voru sandlóa, þúfutittlingur og stormmáfur. Af varpfuglum á svæðinu við Bakka og Héðinshöfða vantar nú aðeins á listann lóuþræl, kríu, kjóa, spóa og óðinshana. Lóuþræll og kría munu væntanlega birtast bráðlega en þessar tegundir sáust báðar á Akureyri í síðustu viku. Óðinshaninn er vanalega síðastur farfugla að koma sér til landsins og þarf því líklega að bíða hans nokkuð enn.

Tjaldurinn var orpinn í Bakkafjöru þegar kannað var nú í morgun en fyrir viku þótti hann mjög varplegur. Í hreiðri tjaldsins voru þrjú egg. Alls eru 3 tjaldspör sem verpa í Bakkakrók.

Af öðrum fuglafréttum héðan frá Húsavík og nágrenni má nefna að í Rekárgili á Tjörnesi kúrði skógarsnípa á laugardag. Hún hraktist þaðan undan fótum forstöðumanns NNA og flaug út með Hringverssandi í norðangarra og kulda. Skógarsnípur sjást hér annað slagið sem flækingar en vitað er þó til þess að þær hafi orpið í N-Þingeyjarsýslu.

tjaldshreidur
Tjaldshreiðrið í Bakka nú í morgun. Þrjú egg í hreiðri.
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin