Starfsmenn Náttúrustofu Norðausturlands rákust á dögunum á svepp sem hafði brotið sér leið upp í gegn um slitlag á þjóðvegi 85 í Kelduhverfi. Í raun er það aðeins aldin sveppsins sem kemur upp en langstærstur hluti hans er neðanjarðar sem smásæir þræðir . Þetta var ullblekill (Coprinus comatus) sem er nokkuð algengur meðfram vegum. Ullblekill er ágætur matsveppur á meðan hann er ungur en þegar hann eldist verður hann svartur og frá honum kemur þykkur svartur vökvi sem inniheldur gróin. Ekki er þó ráðlagt að tína hann við vegi vegna mengunar. Hvort staðsetning þessa sveppaldins er dæmi um kraftmikinn svepp eða lélegt slitlag í Kelduhverfi skal látið ósvarað.
Menu