[English summary below]
Dagana 10.-11. mars 2021 kom lægð úr suðaustri inn yfir Norðausturland. Hrifsaði hún með sér talsvert magn fugla sem hafa að öllum líkindum verið á farflugi yfir Norðursjó, á leiðinni til varpstöðva í Skandinavíu. Fyrstu vísbendingar um að lægðin væri að bera fugla á Norðausturland sáust síðdegis 10. mars, meðan veðrið stóð hæst yfir. Þá varð vart við þrjá svartþresti í garði við Víkingavatn í Kelduhverfi, en þar höfðu svartþrestir ekki sést í allan vetur. Næsta morgun voru þrestirnir orðnir ellefu talsins og fjölgaði upp í a.m.k. tuttugu er leið á daginn. Það var þá orðið ljóst að nú var von á talsverðum fjölda flækingsfugla um landið norðaustanvert en það þykir mjög óvenjulegt að fá göngu flækingsfugla hingað til lands svo snemma vors.
Fjöldi fuglaáhugamanna var á ferðinni dagana á eftir auk þess sem tilkynningar um svartþresti og aðra flækingsfugla bárust víða að. Haldið var utan um fjölda fugla sem tilkynntir voru eftir staðsetningum. Heildarfjöldi svartþrasta var fenginn með því að styðjast við mesta fjölda sem tilkynnt var um frá hverjum stað fyrir sig. Ekki var lagt í að meta hvort um sömu fugla var að ræða milli nærliggjandi staða, enda fjöldinn það mikill og útbreiddur að ótækt var að reyna að meta tilfærslur fugla. Hins vegar var tekið tillit til fjölda svartþrasta sem talið er að hafi verið í vetursetu á sumum stöðum.
Í vikunni sem leið eftir komu lægðarinnar þann 10. mars var tilkynnt um rúmlega 1.800 svartþresti (1. og 2. mynd). Flestir þeirra komu inn á land frá Skagafirði austur á Hérað en einnig sáust fáeinir á Austfjörðum austur á Höfn auk þess sem tilkynnt var um stakan fugl í Miðfirði. Kjarni göngunnar virðist þó hafa átt sér stað í Þingeyjarsýslum, auk Grímseyjar, en um og yfir 100 fuglar sáust í Grímsey, á Húsavík, Kópaskeri og Þórshöfn. Ýmsir aðrir flækingsfuglar sáust einnig en þó hvergi nærri því í sama magni og svartþrestirnir. Sjaldgæfastir voru þrjár hagaskvettur; á Húsavík 11. mars (3. mynd), Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð 12. mars og við Hól á Melrakkasléttu 13.-14. mars. Hagaskvettur eru fremur sjaldséðir flækingar hér á landi, en einungis 21 slíkar höfðu fundist áður. Hins vegar vill svo til að þetta er ein fárra flækingstegunda sem finnst nánast eingöngu síðla vetrar eða snemma vors, en það er einmitt sá tími sem þær fara milli vetrar- og varpstöðva í Evrópu. Af 24 fuglum sem hér hafa fundist nú sáust 22 þeirra milli 26. febrúar og 2. apríl en einungis tvær hafa sést að haustlagi. Þær voru tíðari á árum áður, en fimmtán fundust á árunum 1960-1977. Aðrir flækingsfuglar sem fundust á Norður- og Austurlandi dagana 11.-15. mars voru átján skógarsnípur, ellefu vepjur, fimm sönglævirkjar (4. mynd), fimm söngþrestir, tveir mistilþrestir (5. mynd), hringdúfa, sefhæna, dvergsnípa, eyrugla og gráspör (6. mynd).
Óvíst er hvað mun verða um alla þessa svartþresti sem hingað komu. Margir hafa sennilega gefið upp öndina í kulda og snjó sem kom í kjölfar lægðarinnar. Ekki er ólíklegt að einhverjir fuglanna reyni að leita aftur til sinna heimkynna þegar þeir hafa byggt upp fituforða aftur. En svo má ætla að einhverjir fuglanna ákveði að ílengjast hér fram á vor og verpi mögulega í bland við þá svartþresti sem fyrir eru.
















ENGLISH SUMMARY:
An unprecedented influx of Common Blackbirds, totalling just over 1.800 birds, occurred in northeastern Iceland from 10 March 2021 onwards (figure 1-2). Stormy weather that hit northeast Iceland on 10-11 March 2021 appears to have translocated the birds while they were migrating across the North Sea towards Scandinavia. A number of other rare birds were also found during this time, three European Stonechats (figure 3) being the rarest of them all with only 21 recorded in Iceland prior to 2021. Other rarities include 18 Eurasian Woodcocks, eleven Northern Lapwings, five Eurasian Skylarks (figure 4), five Song Thrushes, 2 Mistle Thrushes (figure 5) and one each of Common Wood Pigeon, Eurasian Moorhen, Jack Snipe, Long-eared Owl and House Sparrow (figure 6).